logo-for-printing

19. mars 2021

Neytendur minntir á áhættu tengda viðskiptum með sýndarfé

Bygging Seðlabanka Íslands

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitið) vekur athygli á frétt evrópsku eftirlitsstofnananna á fjármálamarkaði, þ.e. Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni (EBA), Evrópsku vátrygginga- og lífeyriseftirlitsstofnuninni (EIOPA) og Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni (ESMA), sem birtist 17. mars 2021.

Áhugi almennings á sýndarfé (e. crypto-assets), s.s. Bitcoin, er stöðugt að aukast. Af því tilefni minna stofnanirnar neytendur á að viðskipti með sýndarfé geta verið mjög áhættusöm og að þau fylgja lögmálum spákaupmennsku. Mikilvægt er að neytendur geri sér grein fyrir áhættunni, þar með talið möguleikanum á því að tapa fjármunum sínum, líkt og kom fram í sameiginlegri aðvörun stofnananna sem var birt í febrúar 2018.

Ekkert regluverk gildir um sýndarfé á evrópska efnahagssvæðinu. Þess vegna njóta neytendur sem eiga í viðskiptum með sýndarfé ekki góðs af tryggingakerfi eða neytendavernd sem fylgir fjármálaþjónustu þar sem regluverk er til staðar.

Í september 2020 lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram tillögu að nýrri löggjöf um markaði með sýndarfé. Tillagan er háð breytingum í löggjafarferlinu og njóta neytendur því ekki enn þeirrar verndar sem hún felur í sér.

Þjónustuveitendur viðskipta milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla og þjónustuveitendur stafrænna veskja eru skráningarskyldir hjá Fjármálaeftirlitinu, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Að gefnu tilefni telur Seðlabankinn rétt að árétta að í eftirliti Fjármálaeftirlitsins felst að umræddir aðilar uppfylli kröfur laga og reglna um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, s.s. um gerð áhættumats og framkvæmd áreiðanleikakönnunar. Fjármálaeftirlitið fer ekki með fjárhagslegt eftirlit með viðkomandi aðilum, eftirlit með neytendavernd eða annars konar eftirlit umfram það sem fram kemur í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 140/2018.

Til nánari upplýsinga og fróðleiks bendir Fjármálaeftirlitið á aðvörun sem það birti árið 2018 um sýndarfé og frétt þar sem athygli var vakin á aðvörun evrópsku eftirlitsstofnananna um sama efni. Þá vekur Fjármálaeftirlitið athygli á skýrslu EBA um ráðgjöf til framkvæmdastjórnar ESB varðandi sýndarfé sem gefin var út í janúar 2019.


Til baka