logo-for-printing

30. desember 2020

Tilkynning vegna kaupa Seðlabanka Íslands á skuldabréfum ríkissjóðs

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands hóf í byrjun maí 2020 kaup á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði í samræmi við yfirlýsingu peningastefnunefndar bankans frá 23. mars 2020. Samkvæmt ákvörðun nefndarinnar getur heildarfjárhæð kaupanna numið allt að 150 ma.kr., en verklagið er með þeim hætti að Seðlabankinn tilkynnir fyrirfram um hámarksfjárhæð skuldabréfakaupa á hverjum ársfjórðungi.

Fyrir fyrsta ársfjórðung næsta árs geta heildarkaup bankans numið allt að 20 ma.kr. að kaupverði og geta þau beinst að öllum markflokkum óverðtryggðra ríkisbréfa í íslenskum krónum.

Seðlabankinn mun áfram inna kaupin af hendi með því að leggja fram tilboð í viðskiptakerfi Kauphallar Nasdaq. Einnig er mögulegt að bankinn tilkynni um kaup með útboðsfyrirkomulagi.

Tilkynnt verður um möguleg útboð með eins dags fyrirvara ásamt upplýsingum um þá flokka sem kaupin ná til og áætlaða hámarksfjárhæð kaupanna.

Finna má upplýsingar um almenna útboðsskilmála fyrir möguleg útboð vegna kaupa Seðlabanka Íslands á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði hér.

Stefnt er að því að umfang kaupanna séu í samræmi við eðlilega virkni markaðarins. Seðlabankinn mun því miða fjárhæð, tíðni og framkvæmd kaupanna að því að tryggja skilvirkni aðgerðanna.

Á síðustu þremur ársfjórðungum ársins 2020 var tilkynnt að heildarkaup bankans gætu numið allt að 20 ma.kr. á hverjum fjórðungi að kaupverði.* Heildarkaup bankans á öðrum fjórðungi námu 0,9 ma.kr. að kaupverði sem skiptist þannig að keypt var í skuldabréfaflokknum RIKB21 fyrir 0,2 ma.kr. og RIKB22 fyrir 0,7 ma.kr. Engin kaup áttu sér stað á þriðja ársfjórðungi. Heildarkaup bankans á fjórða fjórðungi námu 6,7 ma.kr. að kaupverði sem skiptist þannig að keypt var í skuldabréfaflokkunum RIKB25 fyrir 1,0 ma.kr., RIKB28 fyrir 2,7 ma.kr og RIKB31 fyrir 3,0 ma.kr.
Ítarlegri sundurliðun á skuldabréfakaupum bankans má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta í síma 569 9600.

* Með kaupverði er átt við hreint verð (e. clean price) með áföllnum verðbótum á höfuðstól, þ.e. verð með verðbótum án áfallinna vaxta.

 

 

Frétt nr. 45/2020
30. desember 2020


Til baka