logo-for-printing

22. september 2020

Yfirlýsing fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands um mat á áhættuþáttum í starfsemi fjármálafyrirtækja

Bygging Seðlabanka Íslands

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitið) leggur mat á helstu áhættuþætti sem felast í starfsemi fjármálafyrirtækja í svonefndu könnunar- og matsferli (e. supervisory review and evaluation process, SREP-ferli). Kveðið er á um ferlið í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Ferlið er árlegt í tilviki kerfislega mikilvægu bankanna þriggja, Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Landsbankans hf., en á tveggja til þriggja ára fresti í tilviki annarra fjármálafyrirtækja.

SREP-ferli kerfislega mikilvægu bankanna þriggja var þegar hafið þegar COVID-19 farsóttin barst til landsins í mars sl. Farsóttin og margvíslegar sóttvarnaraðgerðir sem grípa þurfti til hér á landi hafa breytt rekstrarlegum forsendum banka og margra annarra fjármálafyrirtækja. Jafnframt hefur óvissa um framvindu efnahagsmála aukist mjög sem veldur því að óvenju erfitt er að meta gæði eigna og aðra áhættuþætti í starfsemi banka. Ekki eru horfur á að staðan skýrist að marki fyrr en eftir nokkra mánuði.

Í yfirlýsingu fjármálaeftirlitsnefndar frá 8. apríl sl. segir um SREP-ferlið: „Nú stendur yfir árlegt könnunar- og matsferli hjá kerfislega mikilvægum bönkum (SREP). Í ljósi yfirstandandi erfiðleika munu endanlegar ákvarðanir um eiginfjárþörf væntanlega miðast við uppgjör síðar á árinu fremur en árslok 2019. Þá verður ekki framkvæmt hefðbundið álagspróf í tengslum við yfirstandandi SREP-ferli að svo stöddu.“

Fjármálaeftirlitsnefnd hefur nú ákveðið að niðurstaða úr SREP-ferli 2019 um viðbótarkröfu um eiginfjárgrunn (stoð II-R) skuli standa óbreytt. Fylgst verður grannt með þróun helstu áhættuþátta í starfsemi bankanna á næstu mánuðum. Ef ástæða þykir til, verður viðbótarkrafan endurskoðuð, þó ekki síðar en í SREP-ferli 2021.

Auk mats á nauðsyn viðbótarkröfu um eiginfjárgrunn er í SREP-ferlinu farið yfir atriði eins og lífvænleika og sjálfbærni viðskiptalíkans, stjórnarhætti, rekstraráhættu og stýringu bankans á útlánaáhættu, samþjöppunaráhættu, markaðs- og fastvaxtaáhættu og lausafjár- og fjármögnunaráhættu. Þó svo að nú hafi verið ákveðið að viðbótarkrafa um eiginfjárgrunn standi óbreytt, mun ábendingum og athugasemdum er varða fyrrnefnd atriði verða komið á framfæri við bankana eftir því sem ástæða er til.

Ráðgert er að næsta reglulega SREP-ferli fyrir kerfislega mikilvægu bankana þrjá hefjist seint á þessu ári.

Nr. 32/2020
22. september 2020


Til baka