logo-for-printing

01. september 2020

Ný löggjöf um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja

Bygging Seðlabanka Íslands

Í dag tóku gildi lög nr. 70/2020 um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Markmið þeirra er að varðveita fjármálastöðugleika og lágmarka neikvæðar afleiðingar fjármálaáfalla með því að vernda tryggðar innstæður og fjárfesta, eignir viðskiptavina og nauðsynlega starfsemi fyrirtækja og lágmarka hættu á að veita þurfi fjárframlög úr ríkissjóði.

Samkvæmt lögunum er Seðlabanka Íslands falið skilavald, þ.e. stjórnsýsluvald, til að grípa til aðgerða og sinna undirbúningi og framkvæmd skilameðferðar lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

Ákvæði laganna gilda um lánastofnanir og stærri verðbréfafyrirtæki. Undir gildissvið laganna falla nú tíu lánastofnanir hér á landi en engin verðbréfafyrirtæki. Skilavaldinu er ætlað að leggja mat á skilabærni þessara lánastofnana og vinna skilaáætlanir fyrir lánastofnanir sem ekki fara í hefðbundna slitameðferð. Til að ná markmiðum laganna er Seðlabanka Íslands heimilt að beita afmörkuðum skilaúrræðum, saman eða sjálfstætt. Bankanum verður t.d. heimilt að stofna brúarfyrirtæki sem tekur við eignum og/eða skuldbindingum lánastofnunar í skilameðferð, selja rekstur eða rekstrareiningar lánastofnunar í skilameðferð og skipta upp eignum lánastofnunar í skilameðferð og framselja til eignaumsýslufyrirtækis. Þá verður Seðlabanka Íslands heimilt að krefja lánastofnun um að eigið fé hennar og önnur fjármögnun tryggi að hægt verði að endurfjármagna lánastofnun í skilameðferð með eftirgjöf vegna skuldabréfa (svonefnd MREL-krafa).

Ákvarðanir Seðlabanka Íslands á grundvelli laganna verða teknar með hliðsjón af skilaáætlunum lánastofnana en vinna við gerð þeirra er hafin. Í tengslum við gerð þessara áætlana mun Seðlabankinn fljótlega óska eftir gögnum frá lánastofnunum sem falla undir gildissvið laganna. Gagnasöfnunin verður liður í undirbúningi ákvarðana bankans um MREL-kröfur einstakra lánastofnana. Við markaðsfjármögnun sína geta lánastofnanir framvegis þurft að taka mið af því að form og fjárhæð skuldabréfa þeirra uppfylli MREL-kröfur Seðlabankans.

Stofnuð hefur verið sérstök deild innan Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) sem nefnist skilasjóður. Skilasjóðurinn er á forræði Seðlabanka Íslands og er honum ætlað að fjármagna skilameðferð í samræmi við skilaáætlanir. Framlag til skilasjóðs fyrir árið 2020 hefur þegar verið ákveðið með færslu 1,2 milljarða kr. úr innstæðudeild TIF. Sami háttur verður hafður á árið 2021 en eftir það er gert ráð fyrir að sjóðurinn verði fjármagnaður með innheimtu gjalds af lánastofnunum sem falla undir gildissvið laganna.

Með setningu laganna hefur tilskipun 2014/59/ESB, svonefnd BRRD tilskipun, verið innleidd í íslenskan rétt. Áður höfðu lög nr. 54/2018, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, verið sett til að innleiða þau ákvæði tilskipunarinnar sem sneru að endurbótaáætlunum og tímanlegum inngripum vegna áfalla í rekstri fjármálafyrirtækja.

Seðlabanki Íslands hvetur fjármálafyrirtæki, Samtök fjármálafyrirtækja og aðra sem telja sig eiga hagsmuna að gæta vegna þessarar nýju löggjafar að kynna sér efni hennar vel. Fyrirspurnir vegna nýju laganna má senda á skilavald@sedlabanki.is.

Nr. 29/2020
1. september 2020


Til baka