logo-for-printing

19. ágúst 2020

Könnun á væntingum markaðsaðila

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 10. til 12. ágúst sl. Leitað var til 29 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 25 aðilum og var svarhlutfallið því 86%.

Helstu niðurstöður

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar vænti þess að verðbólga verði yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans út yfirstandandi ár sem er meiri verðbólga en þeir bjuggust við í maíkönnuninni. Þeir búast þó við að hún nálgist markmiðið aftur á fyrri hluta næsta árs. Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að verðbólga verði tæp 3% á þriðja fjórðungi þessa árs, 2,9% á fjórða ársfjórðungi og 2,75% á fyrsta fjórðungi næsta árs. Verðbólguvæntingar til eins, tveggja, fimm og tíu ára eru hins vegar 2,5% og óbreyttar frá síðustu könnun. Langtímaverðbólguvæntingar þeirra hafa því verið í markmiði samfleytt í eitt ár. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar styrkist lítillega á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 160 krónur eftir eitt ár.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans verði áfram 1% á þriðja fjórðungi þessa árs en að þeir lækki um 0,25 prósentur á síðasta fjórðungi ársins. Eftir það vænta markaðsaðilar þess að vextir verði óbreyttir fram á þriðja fjórðung næsta árs. Þeir vænta þess jafnframt að meginvextir bankans verði 0,75% eftir tvö ár. Þetta eru lægri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans í maí sl. en þá væntu þeir þess að vextir yrðu lægstir 1% á fjórða fjórðungi þessa árs og tækju að hækka á fyrri hluta næsta árs.

Nær helmingur svarenda telur að taumhald peningastefnunnar sé hæfilegt um þessar mundir. Það er breyting frá síðustu fimm könnunum en í þeim töldu flestir svarendur að taumhaldið væri of þétt. Hlutfall þeirra sem telja taumhaldið of þétt minnkar mikið milli kannana og var 28% samanborið við 70% í síðustu könnun. Þá fjölgar þeim sem telja taumhaldið of laust úr 11% í 23%.
Heildardreifing svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu var heldur minni í þessari könnun en í síðustu könnun en bil 1. og 3. fjórðungs var álíka breitt. Heildardreifing svara um væntingar markaðsaðila til vaxta minnkaði einnig. Þá minnkaði dreifing svara um gengishorfur milli kannana, bæði þegar spurt var um gengi eftir eitt ár og eftir tvö ár.

Til viðbótar voru markaðsaðilar spurðir um hvaða innlenda raunvaxtastig til lengri tíma myndi að þeirra mati leiða til þess að framleiðsla þjóðarbúsins væri í takt við langtímaframleiðslugetu þess og verðbólga væri við markmið Seðlabankans. Miðgildi svara var 1% og staðalfrávik 0,73 prósentur. Til samanburðar var miðgildi svara 1,25% þegar sama spurning var borin upp fyrir þátttakendur í maí 2019 og 3% þegar spurt var í ágúst 2014.

Sjá nánar: Könnun á væntingum markaðsaðila

Til baka