logo-for-printing

25. júní 2020

Úthlutun úr menningarsjóði tengdum nafni Jóhannesar Nordals

Styrkþegar og fulltrúar þeirra ásamt Jóhannesi Nordal, Ásgeiri Jónssyni og Hildi Traustadóttur.

Í dag fór fram níunda úthlutun úr menningarsjóði sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordals, fyrrverandi seðlabankastjóra. Markmiðið með styrkveitingunni er að styðja viðleitni einstaklinga og hópa sem miðar að því að varðveita menningarverðmæti sem núverandi kynslóð hefur fengið í arf.

Alls bárust 29 umsóknir í ár og hlutu þrjú verkefni styrk úr sjóðnum.

Fræðafélag um forystufé á Svalbarði í Þistilfirði hlaut 1,5 milljóna króna styrk til að skrá allt forystufé í landinu í miðlægan gagnagrunn, fjarvis.is. Forystufé er aðeins til á Íslandi og var viðurkennt sem sérstakur fjárstofn árið 2017. Þetta er fyrsta skrefið í ferli þar sem óskað er eftir að forystufé fari á skrá hjá UNESCO sem dýrategund í útrýmingarhættu.

Krumma films ehf. hlaut 1,5 milljóna króna styrk til þess að varðveita kvikmyndaðar heimildir sem rekja sögu homma og lesbía á Íslandi. Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndagerðarmaður og samstarfsfólk hennar hafa undanfarin 30 ár unnið að þessu verkefni og afrakstur þeirrar vinnu má sjá í heimildarþáttaröðinni Svona fólk sem frumsýnd var árið 2019. Efni sem féll til við framleiðsluna verður gert aðgengilegt á vefnum svonafolk.is. Þannig munu þessar munnlegu og kvikmynduðu heimildir um mannréttindabaráttu homma og lesbía varðveitast.

Sölvi Björn Sigurðsson fékk 1 milljón króna styrk til vinnslu bókar um ævi afa síns, Magnúsar Ásgeirssonar sem var afkastamikill og virtur þýðandi á fyrri hluta 20. aldar. Einnig mun Sölvi fjalla um samskipti Magnúsar við þekkta einstaklinga sem urðu á vegi hans. Þar á meðal eru Nordal Grieg, W.H. Auden, Steinn Steinarr og Tómas Guðmundsson.

Úthlutunarnefndina skipa Hildur Traustadóttir, fulltrúi bankaráðs Seðlabanka Íslands, og er hún jafnframt formaður nefndarinnar, Páll Magnússon, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

 

Á meðfylgjandi mynd eru styrkþegar og fulltrúar þeirra ásamt Jóhannesi Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóra, Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra og Hildi Traustadóttur, formanni úthlutunarnefndar. Frá vinstri talið eru Sölvi Björn Sigurðsson, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Daníel Hansen, Jóhannes Nordal, Ásgeir Jónsson og Hildur Traustadóttir. 


Til baka