logo-for-printing

24. júní 2020

Samningar um stuðningslán undirritaðir

Bygging Seðlabanka Íslands

Með lögum nr. 38/2020 frá 20. maí 2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, var mælt fyrir um ríkisábyrgð að fullu eða að hluta af stuðningslánum sem lánastofnanir veita að settum skilyrðum uppfylltum. Ráðherra var með fyrrnefndum lögum heimilað að semja við Seðlabanka Íslands um að annast framkvæmdina gagnvart lánastofnunum, þar á meðal uppgjör ábyrgða. Hinn 25. maí 2020 var undirritaður samningur milli fjármála- og efnahagsráðuneytis og Seðlabankans um að Seðlabankinn annist framkvæmd á veitingu ábyrgða ríkissjóðs gagnvart lánastofnunum vegna stuðningslána þeirra til rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þá gaf fjármála- og efnahagsráðuneytið hinn 29. maí 2020 út reglugerð um stuðningslán nr. 534/2020.

Á grundvelli framangreinds hefur Seðlabankinn undirritað samninga um stuðningslán með ábyrgð ríkissjóðs við Arion banka, Kviku banka, Landsbankann og Íslandsbanka. Markmið með stuðningslánum er að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Með gerð samninganna hefur skapast grundvöllur fyrir því að hrinda framangreindu efnahagsúrræði vegna kórónuveirufaraldsins í framkvæmd með þeim skilyrðum sem fram koma í lögunum, samningi fjármála- og efnahagsráðherra við Seðlabankann, reglugerð um stuðningslán og samningi milli Seðlabankans og lánastofnana. Tekið verður við umsóknum um stuðningslán í miðlægri þjónustugátt á vefnum island.is.

Samning Seðlabankans við fjármála- og efnahagsráðuneyti vegna stuðningslána má sjá hér.  
Reglugerð fjármála- og efnahagsráðuneytis um stuðningslán má sjá hér.
Samninga Seðlabankans við lánastofnanir vegna stuðningslána má nálgast hér.
Sjá hér lög um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru

Frétt nr. 21/2020
24. júní 2020


Til baka