logo-for-printing

13. maí 2020

Könnun á væntingum markaðsaðila

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 4. til 6. maí sl. Leitað var til 28 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 27 aðilum og var svarhlutfallið því 96%.

Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila hafi lítið breyst frá síðustu könnun bankans í janúar sl. og eru þær því áfram við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að verðbólga verði 2,2% á öðrum fjórðungi þessa árs og 2,4% bæði á þriðja og fjórða ársfjórðungi. Verðbólguvæntingar til eins, tveggja, fimm og tíu ára eru 2,5% og nánast óbreyttar frá síðustu könnun. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti ekki frekari lækkunar á gengi krónunnar á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 160 krónur eftir eitt ár.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans lækki um 0,5 prósentur í 1,25% á öðrum fjórðungi þessa árs. Þá vænta þeir þess að meginvextir bankans lækki um 0,25 prósentur til viðbótar fyrir lok ársins en hækki aftur á næsta ári og verði aftur orðnir 1,25% á öðrum fjórðungi næsta árs. Þeir vænta þess jafnframt að meginvextir bankans verði 1,75% eftir tvö ár. Þetta eru lægri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans í janúar sl., áður en COVID-19 farsóttin dreifðist um allan heim, en þá væntu þeir þess að vextir yrðu 2,75% á næstu tveimur árum.

Meirihluti svarenda telur að taumhald peningastefnunnar sé of þétt um þessar mundir, líkt og í síðustu fjórum könnunum. Hlutfall þeirra sem telja taumhaldið of þétt hækkar milli kannana og var 70% samanborið við 61% í síðustu könnun. Þá fjölgar þeim sem telja taumhaldið of laust úr 4% í 11%. Á móti fækkar þeim sem telja taumhaldið hæfilegt úr 35% í 19%.

Heildardreifing svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu var mun meiri í þessari könnun en í síðustu könnun en bil 1. og 3. fjórðungs var álíka breitt. Heildardreifing svara um væntingar markaðsaðila til vaxta jókst einnig mikið. Þá jókst dreifing svara um gengishorfur milli kannana, bæði þegar spurt var um gengi eftir eitt ár og eftir tvö ár.

Til viðbótar voru markaðsaðilar spurðir hvaða áhrif þeir teldu magnbundna íhlutun Seðlabankans hafa á skuldabréfamarkað. Flestir nefndu að magnbundin íhlutun kæmi til með að auka veltu og seljanleika á markaði og lækka ávöxtunarkröfu skuldabréfa. Hver áhrifin yrðu færi þó m.a. eftir því hversu umfangsmikil útgáfa ríkissjóðs á skuldabréfum yrði á næstu misserum sem og hvaða flokka af skuldabréfum Seðlabankinn myndi kaupa.

Sjá hér gögn um væntingar markaðsaðila:

Væntingar markaðsaðila á öðrum ársfjórðungi 2020 (Excel-skjal)

Eldri spurningar og sértækar spurningar - annar ársfjórðungur 2020 (Excel-skjal)

Sjá hér nánari upplýsingar um væntingakannanir: Könnun á væntingum markaðsaðila


Til baka