logo-for-printing

17. apríl 2020

Samningur um veitingu ábyrgða vegna viðbótarlána

Bygging Seðlabanka Íslands

Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Seðlabanki Íslands hafa undirritað samning um skilmála við framkvæmd á veitingu ábyrgða ríkisins á viðbótarlánum lánastofnana til fyrirtækja í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru.

Sökum faraldursins standa mörg fyrirtæki frammi fyrir miklu tímabundnu tekjufalli og lausafjárvanda. Af þeim sökum heimilaði Alþingi fjármála- og efnahagsráðherra að veita ábyrgð ríkisins á hluta af viðbótarlánum sem lánastofnanir veita fyrirtækjum, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Ráðherra var heimilað að semja við Seðlabanka Íslands um framkvæmd ábyrgðarkerfisins.

Markmið kerfisins er að styðja við fyrirtæki sem verða fyrir verulegum áhrifum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og viðbrögð stjórnvalda vegna faraldursins. Ábyrgðirnar eru liður í því að viðhalda sem hæstu atvinnustigi og fjölbreyttustu atvinnulífi.

Hver lánastofnun getur nýtt tiltekinn hluta af heildarumfangi ábyrgðanna. Viðbótarlán verður að veita fyrir lok árs 2020 og hámarkslánstími frá útgáfu er 18 mánuðir. Horft verður til þess að ábyrgð á einstökum viðbótarlánum verður að hámarki 70%. Lán til einstaks aðila munu geta að hámarki numið tvöföldum árslaunakostnaði árið 2019 og launakostnaður félags verður að lágmarki hafa verið 25% af heildarrekstrarkostnaði þess árið 2019. Lán sem nýtur ábyrgðar getur hæst numið kr. 1,2 ma.kr.

Endanlegt fyrirkomulag ætti að liggja fyrir innan skamms eftir nánari útfærslu milli Seðlabankans og lánastofnana og í kjölfarið gæti veiting viðbótarlána með ábyrgð ríkisins hafist hjá lánastofnunum.

 

Frétt nr. 13/2020
17. apríl 2020

Sjá hér:

Samningur milli fjármála- og efnahagsráðuneytis og Seðlabanka Íslands um framkvæmd á veitingu ábyrgða gagnvart lánastofnunum vegna viðbótarlána þeirra til fyrirtækja vegna heimsfaraldurs kórónuveiru

Til baka