logo-for-printing

02. mars 2020

Viðskiptaafgangur var 51 ma.kr. á fjórða ársfjórðungi 2019 – hrein staða við útlönd jákvæð um 667 ma.kr.

Bygging Seðlabanka Íslands og Esjan á bakvið

Á fjórða ársfjórðungi 2019 var 51 ma.kr. afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd samanborið við 62,9 ma.kr. afgang ársfjórðunginn á undan. Halli á vöruskiptajöfnuði var 11,8 ma.kr. en afgangur á þjónustujöfnuði var 55,7 ma.kr. Frumþáttatekjur skiluðu 9,8 ma.kr. afgangi en rekstrarframlög 2,6 ma.kr. halla (sjá töflu).

Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit yfir greiðslujöfnuð við útlönd á fjórða ársfjórðungi 2019 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Viðskiptaafgangurinn er 46,1 ma.kr. hærri en á sama ársfjórðungi árið áður. Það skýrist af umtalsvert hagstæðari vöruviðskiptum eða sem nemur 25,8 ma.kr. Að sama skapi voru þjónustuviðskipti hagstæðari sem nemur 19,4 ma.kr. Þar af voru 10 ma.kr. vegna hærri þjónustutekna og 9,4 ma.kr. vegna lægri þjónustugjalda. Frumþáttatekjur voru hinsvegar óhagstæðari um 3,5 ma.kr. en rekstrarframlög hagstæðari um 4,4 ma.kr.

Viðskiptaafgangur fyrir árið 2019 í heild nam 172,5 ma.kr. samanborið við 85,6 ma.kr. fyrir árið á undan. Halli á vöruskiptajöfnuði var 99 ma.kr. en afgangur á þjónustujöfnuði var 239 ma.kr. Frumþáttatekjur skiluðu 54,7 ma.kr. afgangi en rekstrarframlög 22,3 ma.kr. halla.

Hrein staða við útlönd var jákvæð um 667 ma.kr. eða 22,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 84 ma.kr. eða 2,8% af VLF á fjórðungnum. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 3.900 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.233 ma.kr. Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu þjóðarbúsins um 52 ma.kr. á fjórðungnum og munar þar mest um niðurgreiðslur skuldabréfa innlánsstofnana sem nema tæpum 63 ma.kr. Erlendar eignir lækkuðu í heildina um 25 ma.kr. vegna fjármagnsviðskipta en skuldir lækkuðu um 77 ma.kr. Gengis- og verðbreytingar höfðu jákvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins um 43 ma.kr., einkum vegna mikilla verðhækkana á erlendum verðbréfamörkuðum, sem voru 8,3% á ársfjórðungnum. Gengi krónunnar lækkaði um 0,6% gagnvart helstu gjaldmiðlum miðað við gengisskráningarvog.

Hagtölurnar hafa verið endurskoðaðar aftur til fyrsta ársfjórðungs ársins 2016. Um reglulega endurskoðun samkvæmt endurskoðunaráætlun er að ræða. Áhrifa endurskoðunarinnar gætir helst í fjármagnsjöfnuði og erlendri stöðu þjóðarbúsins. Mest eru áhrifin á þriðja ársfjórðungi 2019 en hrein staða við útlönd sem nú er birt fyrir ársfjórðunginn er um 130 ma.kr. veikari en við síðustu birtingu í desember sl. Helstu ástæður breytingarinnar eru nýjar upplýsingar um skuldir innlendra fyrirtækja, en áhrifa gætir bæði í hlutabréfum og lánaskuldum.

Sjá hér fréttina í heild með töfluefni: Viðskiptaafgangur var 51 ma.kr. á fjórða ársfjórðungi 2019 – hrein staða við útlönd jákvæð um 667 ma.kr.

Frétt nr. 5/2020


Til baka