logo-for-printing

21. janúar 2020

Frestur til greiðslu í kjölfar innheimtuviðvörunar skv. 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008

Bygging Seðlabanka Íslands

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi aðila sem hafa innheimtuleyfi, sbr. 1. mgr. 16. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Fjármálaeftirlitið hefur sent út dreifibréf til allra aðila með innheimtuleyfi á Íslandi þar sem vakin er athygli á lágmarksgreiðslufresti sem gefa skal skuldara í kjölfar innheimtuviðvörunar.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. innheimtulaga skal kröfuhafi eða innheimtuaðili senda eina skriflega viðvörun eftir gjalddaga kröfu þess efnis að vænta megi frekari innheimtuaðgerða verði krafa eigi greidd innan tíu daga frá sendingu viðvörunar. Í greinargerð með fyrrgreindum lögum kemur fram að í viðkomandi ákvæði sé kveðið á um minnst tíu daga frest en kröfuhafa eða öðrum innheimtuaðila sé heimilt að veita lengri frest til greiðslu. Þá er innheimtuaðilum heimilt að senda fleiri en eina viðvörun, fari það ekki í bága við góða innheimtuhætti, sbr. 6. gr. sömu laga.

Fjármálaeftirlitið vill því benda á að skv. orðalagi 1. mgr. 7. gr. innheimtulaga ber kröfuhafa eða innheimtuaðila að gefa skuldara a.m.k. tíu daga frest frá dagsetningu innheimtuviðvörunar. Mikilvægt er að orðalag innheimtuviðvörunar sé skýrt hvað þetta varðar. Af þessu má ráða að ef skuldari greiðir innan 10 daga frá dagsetningu innheimtuviðvörunar skal innheimtukostnaður vera að hámarki 950 krónur, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 37/2009, um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl., ásamt síðari breytingum. Um vexti fer eftir lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.


Til baka