logo-for-printing

23. október 2019

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2019

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2019

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sótti ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins dagana 17.-20. þessa mánaðar í Washington í Bandaríkjunum. Seðlabankastjóri er fulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. Board of Governors) sem er æðsta ráð stofnunarinnar. Þá sat seðlabankastjóri fundi fjárhagsnefndar AGS (e. International Monetary and Financial Committee, IMFC). Seðlabankastjóri og aðrir fulltrúar Seðlabankans áttu einnig viðræður við yfirstjórn og starfsfólk AGS og funduðu með fjölmörgum fulltrúum fjármálastofnana og matsfyrirtækja.

Fjárhagsnefnd AGS heldur fundi tvisvar á ári þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kynnir mat sitt á ástandi og horfum í heimsbúskapnum auk þess sem ráðgjöf Sjóðsins varðandi stefnumótun er til umfjöllunar. Lesetja Kganyago, seðlabankastjóri Suður-Afríku fer fyrir fjárhagsnefndinni. Í ályktun hans fyrir hönd nefndarinnar (e. IMFC Communiqué) kemur fram að hægt hefur á alþjóðahagvexti síðan á vorfundi Sjóðsins. Þrátt fyrir að búist sé við auknum hagvexti á næsta ári geta spenna í alþjóðaviðskiptum, óvissa um stefnumörkun og svæðapólitík haft neikvæð áhrif á þá framvindu. Nefndarmenn leggja áherslu á að stjórnvöld beiti öllum tækjum sem hægt er til að afstýra því að áhætta raungerist og auka viðnámsþrótt og hagvöxt, öllum til hagsbóta. Þá er lögð áhersla á að styðja við alþjóðlega sáttmála og samstarf.

Fulltrúi kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda var að þessu sinni fjármálaráðherra Finnlands, Mika Lintilä. Í yfirlýsingu kjördæmisins (IMFC Statement) voru alþjóðasamvinna, frjáls viðskipti og loftslagsmál í forgrunni.

Hér að neðan má finna tengla með efni frá ársfundinum:

Ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC Communiqué)

Stefnuyfirlýsing Kristalinu Georgievu, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (Global Policy Agenda, GPA)

Yfirlýsingar allra nefndarmanna í fjárhagsnefnd (IMFC Statements)

Meðfylgjandi mynd var tekin af fulltrúum sjóðráðs á fundinum, þ.m.t. Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra.


Til baka