logo-for-printing

22. október 2019

Upplýsingar um námsstyrk, leyfi og einkamálefni starfsmanns

Bygging Seðlabanka Íslands

Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 18. þessa mánaðar er Seðlabankanum gert að afhenda samning um stuðning við námsdvöl og leyfi frá störfum sem gerður var við starfsmann bankans.

Afstaða Seðlabankans var í grundvallaratriðum sú að upplýsingaréttur samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 tæki ekki til upplýsinga um málefni starfsmanns sem lúta að styrkveitingum til náms, þeirra upplýsinga sem legið geta að baki slíkum ákvörðunum og starfssambandsins að öðru leyti. Það var jafnframt afstaða bankans að styrkveitingar til náms væru ekki hluti af „föstum launakjörum starfsmanna“ sem upplýsingaréttur nær almennt til.

Um þetta var tekist á fyrir dómi og dómur liggur fyrir. Í forsendum dómsins kemur meðal annars fram að „almenningur hafi ríkari hagsmuni af því að skjalið verði gert opinbert en hagsmunir starfsmannsins og stefnanda af því að skjalið lúti leynd.“

Dómurinn hefur nú verið yfirfarinn og metinn í Seðlabanka Íslands og sú ákvörðun hefur verið tekin að áfrýja dóminum ekki til Landsréttar heldur una honum og afhenda blaðamanni Fréttablaðsins umbeðinn „Samning um stuðning við námsdvöl og leyfi frá störfum“ sem dagsettur er 29. apríl 2016 - líkt og kveðið er á um í dómsorðum.

Hér er aðgengilegur „Samningur um stuðning við námsdvöl og leyfi frá störfum.“ Dags. 29. apríl 2016.


Til baka