logo-for-printing

21. ágúst 2019

Könnun á væntingum markaðsaðila

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 12. til 14. ágúst sl. Leitað var til 28 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 24 aðilum og var svarhlutfallið því 86%.

Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila til skamms tíma hafi lækkað frá síðustu könnun bankans um miðjan maí sl. Langtímaverðbólguvæntingar þeirra lækka einnig frá fyrri könnun. Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að verðbólga verði 3,2% á þriðja fjórðungi í ár, 3% á fjórða ársfjórðungi og 2,9% á fyrsta fjórðungi næsta árs. Þá vænta þeir þess að verðbólga verði tæplega 3% eftir eitt ár og 2,5% eftir tvö ár. Þeir búast jafnframt við að verðbólga verði að meðaltali 2,5% á næstu fimm árum og 2,6% á næstu tíu árum. Verðbólguvæntingar til næstu fimm og tíu ára eru því lægri en í maíkönnun bankans. Könnunin gefur einnig til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar haldist svipað á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 138 krónur eftir eitt ár.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans lækki um 0,25 prósentur í 3,5% á þriðja ársfjórðungi í ár og um 0,25 prósentur til viðbótar fyrir lok þessa árs. Þeir vænta þess að í kjölfarið haldist vextir óbreyttir og verði 3,25% eftir bæði eitt og tvö ár sem eru lægri vextir en markaðsaðilar væntu í könnun bankans í maí sl.

Líkt og í síðustu könnun er það mat meirihluta svarenda að taumhald peningastefnunnar sé of þétt um þessar mundir. Áfram töldu þrír af hverjum fjórum taumhaldið vera of þétt eða alltof þétt en hlutfall þeirra sem taldi taumhaldið alltof þétt var 20 prósentum minna en í fyrri könnun.

Heildardreifing svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu minnkaði töluvert í þessari könnun samanborið við dreifingu svara í síðustu könnun. Bil 1. og 3. fjórðungs minnkaði til skamms tíma en jókst lítillega til lengri tíma litið. Dreifing svara um væntingar markaðsaðila til vaxta var einnig minni en í síðustu könnun, bæði til lengri og skemmri tíma litið. Svör þátttakenda um væntingar til vaxta og verðbólgu lágu á nokkuð lægra bili en í könnun bankans í maí.

Til viðbótar voru markaðsaðilar spurðir um hver þróun fasteignamarkaðarins yrði að þeirra mati á næstu tólf mánuðum hvað varðaði verð og veltu. Þeir vænta þess að litlar breytingar verði á raunverði húsnæðis á næstu tólf mánuðum og að velta haldist óbreytt eða minnki lítillega.

Sjá væntingakönnunina hér: Væntingakönnun markaðsaðila á 3. ársfj. 2019

Frekari upplýsingar um væntingakönnun markaðsaðila má finna hér: Væntingakönnun markaðsaðila


Til baka