logo-for-printing

30. janúar 2019

Könnun á væntingum markaðsaðila

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 21.-23. þessa mánaðar. Leitað var til 28 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 21 aðila og var svarhlutfallið því 75%.

Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila bæði til skamms og langs tíma hafi lækkað frá síðustu könnun bankans í lok október sl. Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að verðbólga verði 3,6% á fyrsta ársfjórðungi í ár, aukist í 3,7% á öðrum fjórðungi og haldist þar út árið. Þá vænta þeir þess að verðbólga verði 3,5% eftir eitt ár og 3% eftir tvö ár. Þeir búast jafnframt við að verðbólga verði að meðaltali um 2,8% á næstu fimm og tíu árum sem er 0,2 prósentum minna en í októberkönnun bankans, en 0,2 prósentum meira en á sama tíma fyrir ári. Könnunin gefur einnig til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi evru gagnvart krónu verði 138 kr. eftir eitt ár sem felur í sér lítilsháttar lækkun gengis krónu frá því að könnunin var framkvæmd.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við að meginvextir bankans haldist óbreyttir í 4,5% á fyrsta ársfjórðungi í ár, en hækki um 0,25 prósentur á öðrum ársfjórðungi í 4,75%. Þeir vænta þess jafnframt að vextir verði 4,75% eftir eitt ár, en verði komnir í 4,5% eftir tvö ár. Í könnuninni töldu 24% svarenda taumhald peningastefnunnar vera of laust um þessar mundir sem er lægra hlutfall en í síðustu könnun. Um 57% svarenda töldu taumhaldið hæfilegt samanborið við 48% í síðustu könnun. Hlutfall þeirra sem töldu taumhaldið of þétt eða alltof þétt mælist 19% og hækkaði úr 12% í októberkönnun bankans.
Minni dreifing var á svörum markaðsaðila um væntingar til vaxta Seðlabankans og verðbólguhorfur nú samanborið við síðustu könnun.

Sjá hér nánari upplýsingar um niðurstöðu könnunar á væntingum markaðsaðila 21. til 23. þessa mánaðar: Könnun á væntingum markaðsaðila 21. til 23. janúar 2019.

Nánari upplýsingar um væntingakannanir markaðsaðila: Könnun á væntingum markaðsaðila
Til baka