logo-for-printing

05. nóvember 2018

Könnun á væntingum markaðsaðila

Bygging Seðlabanka Íslands

Könnun Seðlabankans á væntingum markaðsaðila var framkvæmd dagana 29.-31. október sl. Leitað var til 28 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 26 aðilum og var svarhlutfallið því 93%.

Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila til skemmri og lengri tíma hafi hækkað frá síðustu könnun bankans sem framkvæmd var um miðjan ágúst sl. Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að verðbólga verði 3,2% á fjórða ársfjórðungi og aukist í 3,6% á fyrsta fjórðungi næsta árs. Á öðrum og þriðja fjórðungi næsta árs búast markaðsaðilar við að verðbólga verði 3,8%. Þá vænta þeir þess að verðbólga verði 3,6% eftir eitt ár. Eftir tvö ár búast þeir við að verðbólga verði 3,2% og að hún verði að meðaltali um 3% á næstu fimm og tíu árum. Könnunin gefur einnig til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi evru gagnvart krónu verði 140 kr. eftir eitt ár sem felur í sér lítilsháttar lækkun gengis krónu frá núverandi gildi.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við að meginvextir bankans hækki á fjórða ársfjórðungi um 0,25 prósentur í 4,5%. Búast þeir við að fyrir lok annars fjórðungs næsta árs hækki þeir í 4,75% og hækki enn frekar fyrir lok þess þriðja í 5% og verði þannig út næsta ár. Í könnuninni töldu 40% svarenda taumhald peningastefnunnar vera of laust eða alltof laust um þessar mundir. Í síðustu könnun var enginn þátttakandi á þeirri skoðun. Um 48% svarenda töldu taumhaldið hæfilegt samanborið við 81% í síðustu könnun. Hlutfall þeirra sem töldu taumhaldið of þétt eða alltof þétt var 12% og lækkaði úr 19% í ágústkönnun bankans.

Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til vaxta Seðlabankans og verðbólguhorfur í þessari könnun eykst á svo til öllum sviðum frá síðustu könnun.

Að þessu sinni voru markaðsaðilar spurðir um það hver þau telja að sé megindrifkraftur lækkunar á gengi krónunnar frá byrjun september. Stór hluti svarenda nefndi óvissu vegna komandi kjarasamninga, erfiðara rekstrarumhverfi fyrirtækja í ferðaþjónustu og flugrekstri ásamt því að borið hafi á gjaldeyrissöfnun útflutningsaðila.

Sjá nánar: Könnun á væntingum markaðsaðila (sérstök síða með ítarefni).

Til baka