logo-for-printing

22. október 2018

Ársfundir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans 2018

Joko Widodo, forseti Indónesíu

Ársfundir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans voru haldnir á Balí í Indónesíu í dagana 12.-14. október síðastliðin en dagana á undan og eftir voru haldnir margvíslegir aðrir fundir.

Forseti Indónesíu, Joko Widodo, flutti fyrstu ræðuna á opnunarathöfn fundanna. Ræðan vakti mikla athygli fyrir bæði efni og form. Hér má finna tengil á upptöku af ræðunni. Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og Jim Yong Kim, bankastjóri Alþjóðabankans, fluttu einnig ræður við athöfnina og er tengla á ræður þeirra að finna hér að neðan. Fyrir hönd Norður- og Eystrasaltslandanna flutti bankastjóri norska seðlabankans Øystein Olsen ávarp um málefni sjóðsins (sjá tengil að neðan).

Seðlabanki Íslands er fjárhagslegur aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir hönd íslenska ríkisins. Már Guðmundsson seðlabankastjóri er fulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. Board of Governors), sem er æðsta ráð stofnunarinnar. Már sótti ársfund sjóðsins á Balí.

Fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. International Monetary and Financial Committee (IMFC)) er sjóðráði og framkvæmdastjórn ráðgefandi um stefnu hans. Fjárhagsnefnd heldur fundi vor og haust og fjallar á þeim m.a um ástand og horfur í heimsbúskapnum og gefur tóninn varðandi áherslur í starfi sjóðsins á milli funda. Í henni sitja 24 fulltrúar, fjármálaráðherrar og seðlabankastjórar, sem eru fulltrúar einstakra landa eða landahópa (kjördæma) hjá sjóðnum. Auk þess sitja nokkrir áheyrnarfulltrúar fundi fjárhagsnefndarinnar.

Á fundi fjárhagsnefndar lagði framkvæmdastjóri sjóðsins, Christine Lagarde, fram stefnuyfirlýsingu sjóðsins (e. Global Policy Agenda), sjá hér fyrir neðan. Fulltrúi kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefndinni var að þessu sinni seðlabankastjóri Svíþjóðar, Stefan Ingves, og má nálgast yfirlýsingu hans fyrir hönd kjördæmisins hér að neðan.

Í ályktun fjárhagsnefndarinnar (sjá tengil hér að neðan) sem Letesja Kganyago, seðlabankastjóri Suður-Afríku, stýrir kemur m.a. fram að framhald er á öflugri uppsveiflu í heimsbúskapnum. Hins vegar dreifist hagvöxtur ójafnar milli landa en áður og mögulegar hættur sem áður hafi verið bent á hafa að hluta til komið fram. Áskoranir og mögulegar hættur framundan hafa aukist tengdar viðskiptahindrunum, óvissu á vettvangi alþjóðastjórnmála og hækkandi vaxtastigi í heiminum sem gæti sérstaklega haft áhrif á nýmarkaðs- og þróunarlönd. Óvissa í stefnumálum, hátt skuldastig í sögulegu samhengi, aukin áhætta á fjármálamörkuðum og takmarkað svigrúm í stefnumálum geta að auki haft neikvæð áhrif á traust og hagvöxt þegar frá líður.

Aðildarríkin leggja áherslu á að treysta stoðir hagkerfa meðan tækifæri gefst til að styðja við áframhaldandi hagvöxt, taka á áhættuþáttum og auka viðnámsþrótt til þess að bæta hagvaxtarhorfur til meðallangs tíma sem allir geti notið góðs af.

Í tengslum við ársfundinn tók Már Guðmundsson m.a. þátt í pallborðsumræðum um framtíð peninga á ráðstefnu á vegum Reinventing Bretton Woods Committee og Seðlabanka Indónesíu. Þar var m.a. fjallað um sýndarfé og mögulega útgáfu rafrænna seðlabankapeninga (sjá tengil á dagskrá hér að neðan en tenging á upptöku gæti birst síðar). Már tók einnig þátt í pallborðsumræðum um skýrslu sem nefnd á vegum G20 ríkjanna hefur samið og í sitja virtir sérfræðingar (e. G20 Eminent Persons Group). Skýrslan fjallar um skipulag hins alþjóðlega fjármála- og peningakerfis (e. Global Financial Governance – Making the Global Financial System Work for All), sjá tengil hér að neðan. Formaður nefndarinnar var Tharman Shanmugaratnam, varaforsætisráðherra Singapúr.

Már sat einnig árlegan fund stýrinefndar um alþjóðlegar reglur um fjármagnshreyfingar og skipulagt skuldauppgjör á vegum Alþjóðasamtaka fjármálafyrirtækja (IIF), en formenn nefndarinnar eru nú seðlabankastjórar Kína og Frakklands og fyrrverandi seðlabankastjóri Þýskalands. Már hefur setið í stýrinefndinni frá árinu 2011. Loks sótti Már árlegan fund Group of Thirty, sem eru samtök leiðandi sérfræðinga alþjóðlega í fjármálageiranum og háskólasamfélaginu. Sjá hér nánari upplýsingar um Group of Thirty.

Fulltrúar Seðlabankans áttu auk þess fundi með fulltrúum fjármálastofnana og matsfyrirtækja, ásamt því að sækja ráðstefnur sem haldnar voru í tengslum við ársfundinn.

Sjá tengingar í ívitnuð gögn hér að neðan:

Myndband af setningarræðu H.E. Joko Widodo, forseta Indónesíu og ræðu Christine Lagarde forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Jim Yong Kim forseta Alþjóðabankans við upphaf ársfundarins.

Stefnuyfirlýsing Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, lögð fram af Christine Lagarde, framkvæmdastjóra sjóðsins: The Managing Director's Global Policy Agenda:  Rising Risks: A Call for Policy Cooperation

Ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins: Communiqué of the Thirty-Eighth Meeting of the IMFC.

Ávarp Øystein Olsen, seðlabankastjóra í Noregi.

Yfirlýsing Stefan Ingves, fulltrúa kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC Statement by Stefan Ingves Governor of Sveriges Riksbank).

Skýrsla G20 nefndarinnar um Global Financial Governance.

Institute of International Finance, Group of Trustees.

Nýjasta rit Group of Thirty um áskoranir varðandi næsta mögulega áfall í fjármálageiranum: Managing the next financial crisis. An assessment of emergency arrangements in the major economies.

Dagskrá ráðstefnu á vegum Reinventing Bretton Woods Committee og  Bank Indonesia, þriðjudaginn 11. október 2018.

Til baka