logo-for-printing

09.10.2018

Nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár

Skjaldarmerki

Seðlabanki Íslands hefur gefið út nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Þær voru birtar sem reglur nr. 877 í B-deild Stjórnartíðinda í gær, 8. október 2018, en taka gildi 1. nóvember næstkomandi.

Breytingarnar sem reglurnar kveða á um felast fyrst og fremst í einföldun á útreikningi verðbóta innan mánaðar.

Frá gildistöku reglnanna miðast verðbætur innan mánaðar við breytingu á vísitölu neysluverðs á milli gildis vísitölunnar þegar útreikningur er gerður og gildis hennar á fyrsta degi næsta mánaðar þar á eftir, í hlutfalli við fjölda daga sem liðinn er af mánuðinum. Binditími verðtryggðra innlánsreikninga verður eftir sem áður að lágmarki 36 mánuðir og gera reglurnar ráð fyrir því að semja megi um reglulegan mánaðarlegan sparnað í minnst 36 mánuði. Þá kveða reglurnar á um að ríkissjóði sé heimilt að gefa út verðtryggð ríkisverðbréf til skemmri tíma en 5 ára.

Reglurnar má sjá hér: Reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, nr. 877/2018.

Til baka