logo-for-printing

14.06.2018

Ritið Fjármálainnviðir hefur verið birt

Nýtt hefti af Fjármálainnviðum, riti Seðlabanka Íslands um greiðslumiðlun og fjármálainnviði, er komið út. Útgáfa ritsins er liður í þeirri viðleitni Seðlabankans að miðla upplýsingum um fjármálainnviðina, sem segja má að séu nokkurs konar pípulögn fjármálakerfisins, og stuðla að öryggi, virkni og hagkvæmni í greiðslumiðlun. Í ritinu er nú m.a. fjallað um ýmsa áhættu tengda rekstri fjármálainnviða, endurnýjun innviða, nauðsyn á frekara samstarfi rekstraraðila, sviðsmyndir áhættu í stórgreiðslukerfi Seðlabankans, gerjun í smágreiðslumiðlun, virkni hennar, öryggi og áhættu sem henni getur fylgt. Þá er í ritinu greint frá því að fjárhæð seðla og myntar í umferð hafi vaxið nokkuð að nafnvirði þótt reiðufjárnotkun hér á landi sé enn með því minnsta sem gerist í heiminum.

Í formála seðlabankastjóra kemur fram að Seðlabankinn muni innan skamms gefa út tvær skýrslur sem varða fjármálainnviði. Annars vegar verður það skýrsla um smágreiðslumiðlun frá sjónarhóli viðbúnaðar og fjármálastöðugleika, þar sem m.a. verður fjallað um notkun debetkorta, rauntímauppgjör og mikilvægi rafrænnar greiðslumiðlunar hér á landi, jafnt í meðbyr sem mótbyr. Hins vegar er það skýrsla um kosti og galla þess að gefa út rafkrónu og/eða að bjóða almenningi að eiga innlánsreikninga í Seðlabankanum. Þá segir í formálanum að Seðlabankinn telji þörf á því að koma á fót varanlegum upplýsinga- og samstarfsvettvangi allra haghafa á þessu sviði og að bankinn muni hafa frumkvæði að því á næstunni.

Nánari upplýsingar um efnið veita Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Guðmundur Kr. Tómasson, framkvæmdastjóri fjármálainnviða og Sigríður Rafnar Pétursdóttir, forstöðumaður yfirsýnar í Seðlabanka Íslands í síma 569 9600.

Sjá Fjármálainnviði 2018 hér.

Sjá hér eldri hefti Fjármálainnviða.

Til baka