logo-for-printing

24. apríl 2018

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2018

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2018

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti vorfund fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (International Monetary and Financial Committee, IMFC) sem haldinn var liðinni viku í Washington. Að þessu sinni var hann fulltrúi Norður- og Eystrasaltslandanna á fundi nefndarinnar. Tengil á skriflegt ávarp hans fyrir hönd landanna átta má finna hér (og að neðan). Seðlabankastjóri Suður-Afríku, Letesja Kganyago, tók við formennsku í nefndinni á fundinum.

Fulltrúar Seðlabankans áttu fund með Tao Zhang sem er einn af aðstoðarframkvæmdastjórum sjóðsins, auk funda með öðrum stjórnendum og sérfræðingum sjóðsins. Þeir sóttu einnig ráðstefnur sem efnt var til í tengslum við fund fjárhagsnefndarinnar.

Á fundi fjárhagsnefndarinnar lagði framkvæmdastjóri sjóðsins, Christine Lagarde, fram stefnuyfirlýsingu sína (e. Global Policy Agenda) sem sýnir mat sjóðsins á stöðu og horfum í heimsbúskapnum og helstu áskoranir og viðfangsefni framundan. Til skemmri tíma er búist við fremur öflugum hagvexti á heimsvísu sem drifinn er af alþjóðaviðskiptum og fjárfestingu, en horfur eru á að nokkuð dragi úr hagvexti þegar frá líður. Ýmsar áskoranir og mögulegar hættur framundan tengjast meðal annars fjármálastöðugleika og viðskiptahindrunum. Aðildarlönd voru hvött til að efla fjármálastöðugleika, taka á ríkisfjármálum með því að lækka skuldir og að gera skipulagsumbætur til þess að styðja sjálfbæran og varanlegan hagvöxt í allra þágu. Þá voru aðildarþjóðir sjóðsins hvattar til að virða alþjóðlegar reglur um viðskipti og að leitast við að draga úr ójafnvægi í heimsviðskiptum.

Í ályktun fjárhagsnefndarinnar sem samþykkt var í lok fundarins kom fram að hagvöxtur hafi aukist og dreifist nú jafnar milli landa. Aukin áhætta á fjármálamörkuðum, spenna í viðskiptum og hátt skuldastig í heiminum geta hins vegar haft neikvæð áhrif á hagvöxt þegar frá líður. Lögð var áhersla á að treysta stoðir hagkerfa meðan tækifæri gefst til að styðja við áframhaldandi hagvöxt og auka viðnámsþrótt. Skipulagsumbætur ættu að miða að aukinni framleiðni og hagvaxtargetu og hækkuðu atvinnustigi og gæta þarf þess að sem flestir njóti góðs af tækniframförum og hnattvæðingu.

Sjá tengingar í ívitnuð gögn hér að neðan:

Meðfylgjandi er mynd frá fundi fjárhagsnefndar AGS auk myndar sem tekin var af seðlabankastjórum og fulltrúum í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fundinum. 




Til baka

Myndir með frétt

Seðlabankastjórar og fulltrúar í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á vorfundi 2018