logo-for-printing

23. febrúar 2018

Seðlabanki Íslands birtir undanþágu sem bankinn veitti Kaupþingi hf. 15. janúar 2016

Seðlabanki Íslands birtir hér með undanþágu sem bankinn veitti Kaupþingi hf. frá gjaldeyrislögum þann 15. janúar 2016 til útgreiðslu til kröfuhafa í bú Kaupþings. Forsenda undanþágunnar var að Kaupþing hafði uppfyllt svokölluð stöðugleikaskilyrði sem tryggðu að útgreiðslur úr búinu gætu átt sér stað án þess að fjármálalegum stöðugleika eða stöðugleika í gengis- og peningamálum yrði raskað. Ákvörðun um birtingu undanþágunnar var tekin eftir að Seðlabankanum barst bréf frá fjármála- og efnahagsráðherra þar sem óskað var eftir því að bankinn kannaði mögulega birtingu. Í samræmi við lög og ákvæði í samningum aðila leitaði Seðlabankinn samþykkis Kaupþings, Kaupskila ehf. og Arion banka hf. fyrir birtingunni, og liggur það nú fyrir. Ekki er þó hægt að birta upplýsingar um málefni annarra einstaklinga og fyrirtækja en Kaupþings, Kaupskila og Arion banka og því strokað yfir þær þar sem við á. Þau atriði hafa hins vegar ekki efnislega þýðingu varðandi það sem er helsta tilefni birtingarinnar, þ.e. mögulegar breytingar á eignarhaldi kerfislega mikilvægs banka. Í ljósi þess að undanþágan og málefni henni tengd varða mikilvæga almannahagsmuni telur Seðlabankinn að góð og gild rök séu fyrir því að birta þessi skjöl nú með þessum hætti.

Hér á eftir fylgja nánari upplýsingar um bakgrunn þessa máls en auk þess er bent á skýrslu Seðlabankans sem birtist á vef hans 27. október 2015: Uppgjör fallinna fjármálafyrirtækja á grundvelli stöðugleikaskilyrða: áhrif á greiðslujöfnuð og fjármálastöðugleika. Þar voru m.a. raktar aðgerðir sem Kaupþing hugðist ráðast í til að uppfylla stöðugleikaskilyrði í tengslum við þau markmið sem að baki þeim lágu. Um almennar upplýsingar um losun fjármagnshafta skal jafnframt vísað til Sérrits Seðlabanka Íslands nr. 10. frá desember 2016: Losun fjármagnshafta.

Í júlí 2015 voru samþykkt lög á Alþingi um stöðugleikaskatt sem lagður skyldi á slitabú fallinna viðskiptabanka og sparisjóða. Skattaðilum var heimilað að leita undanþága frá lögum um gjaldeyrismál til Seðlabankans á grundvelli stöðugleikaskilyrða áður en stöðugleikaskattur yrði lagður á. Stöðugleikaskilyrðin fólu í sér eftirfarandi:

     • Að gerðar yrðu ráðstafanir sem drægju nægilega úr neikvæðum áhrifum af útgreiðslum andvirðis eigna í íslenskum krónum.
     • Að öðrum innlendum eignum fallinna fjármálafyrirtækja í erlendum gjaldeyri yrði breytt í langtímafjármögnun að því marki sem þörf krefði.
     • Að tryggt yrði, í þeim tilvikum sem það átti við, að lánafyrirgreiðsla stjórnvalda í erlendum gjaldeyri sem veitt yrði nýju bönkunum í kjölfar hruns á fjármálamarkaði yrði endurgreidd.

Forsenda þess að uppgjör slitabúanna yllu ekki óstöðugleika í gengis- og peningamálum og röskuðu ekki fjármálastöðugleika var að gripið yrði til ráðstafana til mótvægis neikvæðum áhrifum sem stöfuðu af útgreiðslum innlendra eigna til erlendra kröfuhafa. Stöðugleikaskilyrðin voru útfærð þannig að stöðugleiki yrði tryggður við uppgjör slitabúanna við kröfuhafa sína.
Seðlabankanum barst erindi frá fjármála- og efnahagsráðherra hinn 15. febrúar sl. þar sem þess var óskað að bankinn kannaði möguleika á að birta opinberlega undanþáguna til Kaupþings ásamt þeim fylgiskjölum sem undanþágan grundvallaðist á og í því sambandi kanna viðhorf mótaðila bankans til þess. Seðlabankinn tók jákvætt í þetta erindi og hóf þegar að afla samþykkis þeirra sem hlut eiga að máli enda er Seðlabankinn samkvæmt lögum bundinn trúnaði gagnvart viðskiptavinum sínum. Því ferli lauk með samþykki allra aðila.

Birt gögn:

Erindi frá fjármála- og efnahagsráðherra dags. 14. febrúar 2018

Svar bankans til ráðherra, dags. 19. febrúar 2018

Undanþága Kaupþings hf. frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með fylgiskjölum

Nr. 3/2018
23. febrúar 2018

Til baka