logo-for-printing

07. febrúar 2018

Yfirlýsing peningastefnunefndar 7. febrúar 2018

Bygging Seðlabanka Íslands og Esjan á bakvið

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,25%.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í febrúarhefti Peningamála verður hagvöxtur áranna 2017 og 2018 heldur minni en spáð var í nóvember. Stafar það einkum af því að útflutningur jókst hægar í fyrra en gert var ráð fyrir en á móti vegur hraðari vöxtur innlendrar eftirspurnar bæði árin. Það skýrist aðallega af meiri fjárfestingu og minna aðhaldi í opinberum fjármálum.

Verðbólga í janúar jókst úr 1,9% í 2,4% sem einkum má rekja til hækkunar húsnæðisverðs á landsbyggðinni. Undirliggjandi verðbólga jókst einnig nokkuð. Undanfarið hálft ár hefur dregið úr verðhækkun húsnæðis en áhrif hærra gengis krónunnar farið dvínandi. Líklegt er að þessi þróun haldi áfram á næstunni. Gengið hefur lítið breyst frá síðasta fundi peningastefnunefndar enda hefur gjaldeyrismarkaðurinn verið í ágætu jafnvægi. Horfur eru á að verðbólga verði nálægt markmiði á spátímanum og verðbólguvæntingar hafa á heildina litið einnig verið í samræmi við það um nokkurt skeið.

Hátt raungengi hefur hægt á vexti útflutnings og horfur eru á minnkandi spennu í þjóðarbúskapnum. Eigi að síður er áfram þörf fyrir peningalegt aðhald til að halda aftur af örum vexti innlendrar eftirspurnar, m.a. í ljósi þess að horfur eru á minna aðhaldi í opinberum fjármálum en áður var gert ráð fyrir. Þá ríkir enn óvissa um niðurstöðu kjarasamninga.

Nr. 2/2018
7. febrúar 2018

Vextir verða því sem hér segir:

1. Daglán: 6,00%
2. Lán gegn veði í verðbréfum: 5,00%
3. Innlán bundin í 7 daga: 4,25%
4. Viðskiptareikningar: 4,00%
5. Bindiskyldar innstæður: 4,00%

Til baka