logo-for-printing

02. febrúar 2018

Sparibaukar til sýnis í Seðlabankanum í kvöld

Sparibaukar til sýnis í Seðlabankanum í tilefni af safnanótt

Myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns verður opið í kvöld frá klukkan 19:00 í tilefni af safnanótt. Már Guðmundsson seðlabankastjóri býður fólk velkomið þegar safnið verður opnað, en að því loknu verður sýnd stuttmynd um orður og heiðurspeninga. Síðar, eða klukkan 20:00, mun Sigurður Helgi Pálmason safnvörður flytja erindi um orður og heiðurspeninga sem opinberir aðilar á Íslandi hafa veitt, en auk þess fjallar hann um orður sem Íslendingar hafa verið sæmdir fyrir hlut sinn í friðargæslu og hernaði. Þá verða til sýnis ýmsir sparibaukar sem fjármálastofnanir hafa afhent ungum sparifjáreigendum.

Í safninu verða síðan til sýnis ýmsar orður og heiðurspeningar sem Íslendingar hafa verið sæmdir. Með þessari sýningu verður skyggnst inn í þá merku sögu sem íslenskar orður og heiðurspeningar hafa að geyma. Elsta orðan er frá 1833 en eftir það hafa 13 mismunandi orður verið veittar og hafa yfir sjö þúsund einstaklingar verið sæmdir þeim.

Börn og fullorðnir geta tekið þátt í spurningaleik um efnið og geta börn fengið sérútbúna orðu fyrir þátttöku sína. Í myntsafninu verður einnig hægt að líta á úrval íslenskra sparibauka í gegnum tíðina. Stuttmyndin um orður og heiðurspeninga verður endursýnd klukkan 20:30 og 22:00 og Sigurður flytur erindi sitt einnig klukkan 21:30.

Sjá hér nánari upplýsingar um Myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns.

Aðgengi að safninu er frá Arnarhóli, en þaðan er gengið inn um aðaldyr Seðlabankans við Kalkofnsveg 1 í Reykjavík.

Til baka