logo-for-printing

17. október 2017

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2017

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2017

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem haldinn var í Washington D.C. dagana 13. og 14. október síðastliðinn. Fulltrúar Seðlabankans áttu einnig fundi með stjórnendum og sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, auk fulltrúa fjármálastofnana og matsfyrirtækja, ásamt því að sækja ráðstefnur sem haldnar voru í tengslum við fundina.

Á fundi fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. International Monetary and Financial Committee (IMFC)) kynnti framkvæmdastjóri sjóðsins stefnuyfirlýsingu sína (e. Global Policy Agenda), sjá hér fyrir neðan.

Fulltrúi kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefndinni var að þessu sinni seðlabankastjóri Eistlands, Ardo Hansson, og má nálgast yfirlýsingu hans fyrir hönd kjördæmisins hér að neðan.
Í ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem Agustín Carstens, seðlabankastjóri Mexíkó, hefur stýrt, kemur m.a. fram að framhald er á uppsveiflu í heimsbúskapnum og að hagvaxtarhorfur hafa batnað. Vaxandi hagvöxtur gefur stjórnvöldum færi á að koma á skipulagsumbótum og efla viðbúnað til að verjast neikvæðri framvindu. Lögð var áhersla á að treysta fjármálakerfið. Virkt eftirlit með fjármálakerfinu og þjóðhagsvarúðartæki skipta sköpum til að verja fjármálastöðugleika. Ályktun fjárhagsnefndarinnar má nálgast hér að neðan.

Tenglar:

Ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ársfundarræða Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Stefnuyfirlýsing framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Yfirlýsing Ardo Hansson, seðlabankastjóra Eistlands og fulltrúa kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ársfundarræða Vitas Vasiliauskas seðlabankastjóra Litháens fyrir hönd kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.

 

Til baka