logo-for-printing

26. september 2017

Málstofa um trúnaðarbrest í Evrópu og leiðir til úrbóta

Bygging Seðlabanka Íslands

Í dag, 26. september kl. 15:00, verður haldin málstofa Í Seðlabanka Íslands þar sem Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, mun gera grein fyrir niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem hann hefur unnið ásamt Christian Dustmann, Barry Eichengreen, Sebastian Otten, André Sapir og Guido Tabellini. Gylfi mun fjalla um niðurstöður í nýútkominni grein, Europe‘s trust deficit: Causes and remedies, sem hann er höfundur að ásamt ofangreindum fræðimönnum.  

Markmið höfundanna er að greina ástæður þess trúnaðarbrests sem einkennir evrópsk stjórnmál í dag, minnkandi stuðning við hefðbundna stjórnmálaflokka og stofnanir og vaxandi efasemdir um framtíð Evrópusambandsins. Þeir telja að þróunina megi skýra með tilvísun í hentistefnu eða lýðhygli (popúlisma); stefnu sem skilgreind er út frá stjórnlyndi, þjóðernisstefnu og andstöðu við hefðbundin þjóðfélagsöfl (elite). Þeir telja að efnahagslegt óöryggi fólks og hreppapólitík, eða stjórnmálabarátta sem tengist sjálfsmynd hópa, (identity politics) ýti undir stuðning við þessa stefnu.


Málstofan verður haldin í dag kl. 15:00 í fundarsalnum Sölvhóli á fyrstu hæð í byggingu Seðlabankans við Kalkofnsveg 1 í Reykjavík. Gengið er inn frá Arnarhóli.

Frekari upplýsingar um rannsóknina og greinina má nálgast hér á vefsvæði CEPR og hér: Europe's Trust Deficit: Causes and Remedies.

Til baka