logo-for-printing

07. júlí 2017

Fitch hækkar langtímalánshæfiseinkunn ríkissjóðs í „A-“ – horfur sagðar jákvæðar

Bygging Seðlabanka Íslands

Matsfyrirtækið Fitch Ratings tilkynnti í dag að það hefði hækkað lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins á langtímaskuldbindingum í innlendri og erlendri mynt í „A-“ úr „BBB+“. Þá eru horfur fyrir einkunnina sagðar jákvæðar (e. outlook positive). Drifkraftar hækkunarinnar eru einkum batnandi ytri staða þjóðarbúsins og skuldalækkun hins opinbera ásamt sterkum hagvexti.

Í tilkynningu fyrirtækisins segir m.a. að þættir sem gætu hver um sig eða allir saman leitt til hækkunar á lánshæfiseinkunninni séu:

• Geta þjóðarbúsins til þess að mæta ytri áföllum eftir afnám fjármagnshafta.
• Áframhaldandi hagvöxtur án of mikils þjóðhagslegs ójafnvægis.
• Áframhaldandi lækkun skuldahlutfalla hins opinbera, studd af ábyrgri ríkisfjármálastefnu.

Þá segir að þar sem horfurnar eru jákvæðar búist Fitch ekki við framvindu sem væri líkleg til þess að leiða til lækkunar á lánhæfiseinkunn. Samt sem áður gætu eftirfarandi þættir, hver um sig eða allir saman, leitt til neikvæðrar breytingar á lánshæfismati:

• Vísbendingar um ofhitnun hagkerfisins, til dæmis með víxlhækkun launa og verðlags og verðbólgu umfram markmið, með neikvæðum áhrifum á efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja.
• Veikari ásetningur (e. weakened commitment) um að efla stöðu ríkisfjármála til meðallangs tíma.
• Mikil útflæði fjármagns sem leiða myndi til ytra ójafnvægis og þrýstings á gengi krónunnar.

Hér má sjá tilkynningu Fitch í heild.

Til baka