logo-for-printing

09. febrúar 2017

Könnun á væntingum markaðsaðila

Bygging Seðlabanka Íslands

Könnun á væntingum markaðsaðila var framkvæmd dagana 30. janúar - 1. febrúar sl. Leitað var til 30 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 17 aðilum og var svarhlutfallið því 57%.

Helstu niðurstöður

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila til eins árs hafi hækkað lítillega miðað við síðustu könnun bankans sem framkvæmd var í nóvember sl., en að þær hafi lækkað lítillega til lengri tíma. Miðað við miðgildi svara í könnuninni eru væntingar um 1,9% verðbólgu á fyrri helmingi þessa árs en að hún aukist síðan lítillega og verði 2,3% á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Þá vænta markaðsaðilar þess að verðbólga verði 2,8% eftir tvö ár og 2,7% að meðaltali næstu fimm og tíu ár sem er um 0,2 prósentum minni verðbólga en þeir væntu í síðustu könnun. Þá gefur könnunin til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi evru gagnvart krónu verði 120 kr. eftir eitt ár, þ.e. að gengi krónu verði tæplega 3% lægra en þeir væntu í síðustu könnun bankans.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að vextir bankans verði lækkaðir um 0,25 prósentur á fyrri hluta þessa árs. Það samsvarar því að meginvextir lækki úr 5% í 4,75% en hækki aftur í 5% í byrjun næsta árs og haldist þá óbreyttir út spátímann. Þetta eru heldur lægri vextir en þeir væntu í samsvarandi könnun í nóvember sl.
Þegar könnunin var framkvæmd taldi um 41% svarenda taumhald peningastefnunnar vera hæfilegt sem er 15 prósentum hærra hlutfall en í síðustu könnun. Hlutfall þeirra sem töldu taumhaldið of þétt eða alltof þétt lækkaði um 7 prósentur, í 53%. Þá fækkaði þeim sem töldu taumhaldið of laust eða alltof laust einnig úr 13% í 6%.1

Aðeins minni dreifing er í svörum markaðsaðila um væntingar til vaxta bankans í þessari könnun en í nóvemberkönnun bankans. Þá er horft á heildardreifingu svara, en bil 1. og 3. fjórðungs er nokkuð sambærilegt milli kannana. Svipaða sögu er að segja af dreifingu svara um verðbólguþróun en heildardreifing svara var talsvert meiri í síðustu könnun.

Í könnuninni í febrúar voru markaðsaðilar spurðir hverjir þeir telja að meginvextir Seðlabankans eigi að vera nú. Svörin voru á bilinu 3,5-5,5% en rúmlega helmingur svarenda töldu þá eiga að vera á bilinu 4,75-5% eða jafnháa eða 0,25 prósentum lægri en þeir eru nú. Þá taldi tæplega fimmtungur þá eiga vera 4,5%.

Sjá væntingakönnunina hér: Væntingakönnun markaðsaðila á 1. ársfj. 2017

Frekari upplýsingar um væntingakönnun markaðsaðila má finna hér: Könnun á væntingum markaðsaðila

1Niðurstöður fjórða ársfjórðungs 2016 hafa verið endurskoðaðar vegna mistaka við úrvinnslu síðustu könnunar.
Til baka