logo-for-printing

16. janúar 2017

Nokkur atriði um fjárfestingarleiðina

Bygging Seðlabanka Íslands og Esjan á bakvið

Seðlabanki Íslands sendi vefritinu Kjarnanum fyrir helgi svar við spurningum er varða svokallaða fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, en spurningar vefritsins komu í kjölfar nýlegrar birtingar á skýrslu starfshóps á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis um eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Til glöggvunar er svar Seðlabankans birt hér í heild.

Spurningar Kjarnans vörðuðu m.a. samstarf eða upplýsingamiðlun Seðlabanka Íslands og yfirvalda skattamála, um aðgerðir gegn peningaþvætti og um nöfn á þátttakendum í fjárfestingarleið Seðlabankans.

Svar Seðlabankans var svohljóðandi:

Vegna tilvitnaðrar málsgreinar í viðauka skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, sem fjallar um miðlun upplýsinga, er rétt að fram komi að skattayfirvöld fengu umbeðnar upplýsingar um þátttakendur í gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands með nokkrum sendingum á árunum 2012 til 2015. Í skýrslunni koma fram upplýsingar um þátttöku fjárfesta í útboðum fjárfestingarleiðar með fjármuni frá svæðum sem skilgreind eru sem lágskattasvæði, en þau eru 29 samkvæmt lista fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Frá þeim svæðum tóku sjö lögaðilar í meirihlutaeigu íslenskra aðila þátt í einhverju af 21 útboði fjárfestingarleiðar á árunum 2012 til 2015 fyrir alls 13 milljónir evra. Þessa fjárhæð má tvöfalda þar sem fjárfestarnir þurftu að skipta jafnhárri fjárhæð hjá fjármálafyrirtæki hér á landi á svonefndu álandsgengi til að uppfylla skilyrði útboðanna. Þannig nam fjárfesting þeirra u.þ.b. 26 milljónum evra, sem samsvarar tæplega fimm milljörðum króna. Fjárfesting þessara aðila nam því um 2,4% af heildarfjárfestingu vegna þátttöku í útboðum fjárfestingarleiðar. Frá Lúxemborg, Kýpur og Möltu, sem ekki eru á lista yfir svæði sem skilgreind eru sem lágskattasvæði, tóku 12 lögaðilar í meirihlutaeigu íslenskra aðila þátt í fjárfestingarleiðinni með 82 milljónir evra.

Fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands var liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta frá mars 2011 sem miðaði að því að koma skammtímafjármagni (aflandskrónum) í eigu erlendra fjárfesta í eigu langtímafjárfesta, sem væru síður líklegir til að selja eignir í krónum fyrir erlendan gjaldeyri við losun fjármagnshafta. Með þeim hætti var búið í haginn fyrir losun fjármagnshafta án þess að gengið yrði um of á gjaldeyrisforða og stuðlað samtímis að atvinnuuppbyggingu. Þátttakendur í útboðum Seðlabankans urðu að uppfylla fjölmörg skilyrði skilmála sem giltu um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt fjárfestingarleið. Fjármálafyrirtæki höfðu milligöngu um að miðla til Seðlabankans umsóknum fjárfesta um þátttöku í útboðum fjárfestingarleiðar og m.a. að ganga úr skugga um að fyrirhuguð fjárfesting uppfyllti formkröfur Seðlabankans samkvæmt skilmálum fjárfestingarleiðar. Formlega var þátttaka í útboðunum í nafni innlends fjármálafyrirtækis sem var þá gagnaðili Seðlabankans í viðskiptunum. Fjármálafyrirtæki báru einnig þá skyldu að kanna fjárfesta, þ.e. viðskiptamenn sína, með tilliti til laga nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og staðfesta áreiðanleika þeirra gagnvart Seðlabankanum. Eftirlit með því að fjármálafyrirtæki sinni skyldum sínum varðandi peningaþvættisathuganir er í höndum Fjármálaeftirlitsins. Seðlabankanum er ekki kunnugt um að gerðar hafi verið athugasemdir við starfsemi milligönguaðila hvað varðar peningaþvættiskannanir og skyldur skv. lögum nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Í samræmi við skilmála fjárfestingarleiðar athugaði gjaldeyriseftirlit Seðlabankans hvort fjárfestir, eða lögaðili sem hann átti eða átti sæti í stjórn eða var í forsvari fyrir, lægi undir rökstuddum grun um brot á lögum eða reglum um gjaldeyrismál, hefði verið ákærður af handhafa ákæruvalds eða kærður til lögreglu af Seðlabankanum vegna slíkra brota, og máli vegna þess væri enn ólokið hjá ákæruvaldi eða lögreglu, eða vanvirt óuppgerða stjórnvaldssekt eða sátt vegna þeirra.

Eins og að ofan greinir þurftu þátttakendur í fjárfestingarleiðinni að uppfylla ýmis skilyrði fyrir þátttöku. Seðlabanki Íslands hafði hins vegar engar lagaheimildir til að velja eða hafna þátttakendum á grundvelli þess frá hvaða landssvæði þeir komu, hvort sem það var aflandssvæði eða ekki.

Seðlabanki Íslands getur ekki tjáð sig um þátttöku tiltekinna einstaklinga og lögaðila í útboðum bankans með vísan til þagnarskylduákvæðis 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn getur því ekki veitt umbeðnar upplýsingar um nöfn þeirra sem tóku þátt í fjárfestingarleið Seðlabankans, uppruna fjár þeirra og umfang viðskipta hvers og eins.




Til baka