logo-for-printing

30. desember 2016

Breytingar á reglum um gjaldeyrismál o.fl.

Bygging Seðlabanka Íslands og Esjan á bakvið

Nú um áramótin verður tekið veigamikið skref til losunar fjármagnshafta á heimili og fyrirtæki í samræmi við þriðja áfanga áætlunar stjórnvalda frá júní 2015. Frá þeim tíma munu innlendir og erlendir aðilar geta flutt innstæður og verðbréf til og frá landinu, átt viðskipti með verðbréf erlendis og keypt eða tekið út erlendan gjaldeyri í reiðufé fyrir allt að 100 milljónum króna. Um áramótin taka jafnframt gildi nýjar reglur um gjaldeyrismál sem fela í sér frekari heimildir til gjaldeyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga á milli landa.

Með þessum breytingum minnka takmarkanir sem fyrirtæki hafa búið við vegna fjármagnshafta enn frekar og þorri almennings mun búa við litlar sem engar skorður vegna þeirra.

Lög um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, tóku gildi 21. október 2016 og fólu í meginatriðum í sér eftirfarandi breytingar þegar við gildistöku:

• Bein erlend fjárfesting varð ótakmörkuð en háð staðfestingu Seðlabanka Íslands.
• Fjárfesting í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðsla erlendra lána varð heimil fyrir jafnvirði allt að 30.000.000 kr, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
• Einstaklingum varð heimilt að kaupa eina fasteign erlendis á almanaksári, óháð tilefni og kaupverði.

 

Fram til þessa hefur fyrsta skref losunarinnar gengið vel. Innsendum beiðnum um undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál hefur fækkað um helming, fjárfesting erlendis aukist og framkvæmd einfaldast.

Helstu breytingar sem taka gildi um áramót eru eftirfarandi:

• Fjárhæðarmark verður hækkað í 100.000.000 kr. vegna fjárfestingar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðslu lána í erlendum gjaldeyri.
• Skilyrði um innlenda vörslu erlendrar verðbréfafjárfestingar fellur niður og vörsluflutningur erlendra verðbréfa á milli landa verður ótakmarkaður og óháður framangreindu fjárhæðarmarki.
• Heimildir einstaklinga til kaupa og úttekta á erlendum gjaldeyri í reiðufé eru rýmkaðar verulega þannig að einstaklingum verður heimilt að kaupa eða taka út erlendan gjaldeyri í reiðufé innan framangreinds fjárhæðarmarks. Reiðufjárúttektir verða þannig ekki lengur háðar framvísun farmiða eða kvittunar vegna ferðalaga erlendis.
• Innstæðuflutningur verður heimilaður innan framangreindra fjárhæðarmarka. Þar með munu innlendir og erlendir aðilar geta flutt innstæður og verðbréf til og frá landinu og átt viðskipti með verðbréf erlendis innan þeirra marka sem lögin setja þeim.

 

Samhliða breytingum á lögum um gjaldeyrismál hafa reglur um gjaldeyrismál verið uppfærðar, sbr. reglur nr. 1266/2016, um gjaldeyrismál, sem öðlast gildi 1. janúar nk. Útstreymi í framhaldi af losun fjármagnshafta á heimili og fyrirtæki hefur hingað til verið fremur lítið og fátt bendir til þess að það muni breytist verulega í kjölfar breytinganna nú um áramótin. Í ljósi þess að gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins hefur batnað verulega í kjölfar mikils gjaldeyrisinnstreymis, sem rekja má til afgangs á viðskiptajöfnuði, og að líkur á gjaldeyrisútstreymi samfara frekari losun fjármagnshafta hafa minnkað hefur verið ákveðið að veita frekari heimildir til gjaldeyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga á milli landa í reglum um gjaldeyrismál. Helstu breytingar eru eftirfarandi:

• Heimild til endurfjárfestingar verður ekki lengur háð tímamarki.
• Fjármagnshreyfingar af reikningi í eigu erlends fjármálafyrirtækis í innlendum gjaldeyri (Vostro-reikningar) verða heimilar ef sýnt er fram á að þær séu til komnar vegna nýtingar heimildar framangreinds fjárhæðarmarks.
• Fjárfesting í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri milli tveggja innlendra aðila verður heimil innan framangreinds fjárhæðarmarks.

 

Seðlabanki Íslands mun samhliða gildistöku reglnanna uppfæra leiðbeiningar um framkvæmd þeirra til stuðnings fjármálafyrirtækjum og öðrum í þeim tilvikum þar sem krafist er tilkynningar til Seðlabankans eða staðfestingar hans á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum á milli landa. 

Lög, reglur og leiðbeiningar má finna hér.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar með því að senda fyrirspurn á netfangið gjaldeyrismal@sedlabanki.is eða hringja í síma 569-9600, en símatími lögfræðinga gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands er frá 10:00 til 11:30 alla virka daga.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.

 

Frétt nr. 34/2016
30. desember 2016

Til baka