logo-for-printing

17. nóvember 2016

Könnun á væntingum markaðsaðila

Bygging Seðlabanka Íslands

Könnun á væntingum markaðsaðila var framkvæmd dagana 31. október - 2. nóvember sl. Leitað var til 29 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 19 aðilum og var svarhlutfallið því 66%.

Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila hafi lækkað til skamms tíma frá síðustu könnun bankans sem var framkvæmd í ágúst sl. en að þær séu svipaðar til eins árs eða lengur. Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar um 1,8% verðbólgu á fjórða fjórðungi þessa árs sem er aðeins meiri verðbólga en þeir væntu í síðustu könnun og má líklega rekja til aukinnar ársverðbólgu í kjölfar leiðréttingar Hagstofunnar á útreikningi verðbólgu í september sl. Markaðsaðilar vænta aftur á móti um 1,7% verðbólgu á bæði fyrsta og öðrum fjórðungi næsta árs og um 1,9% á þeim þriðja. Það er allt að 0,4 prósentum minni verðbólga en þeir gerðu ráð fyrir í ágúst. Könnunin bendir einnig til þess að markaðsaðilar búist við að verðbólga verði 2,2% eftir eitt ár, 3% eftir tvö ár og 3% að meðaltali á næstu fimm árum sem er nánast óbreytt frá síðustu könnun. Væntingar um meðalverðbólgu á næstu tíu árum lækkuðu hins vegar lítillega eða um 0,2 prósentur milli kannana, í 2,8%. Þá gefur könnunin til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi evru gagnvart krónu verði 117 kr. eftir eitt ár, þ.e. að gengi krónu verði tæplega 7% hærra en þeir væntu í síðustu könnun bankans.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að veðlánavextir bankans verði lækkaðir um 0,25 prósentur fyrir lok þessa árs, í 5,75%, og verði haldið þar fram á fjórða ársfjórðung 2017 þegar þeir verði hækkaðir á ný í 6%. Eru þetta nokkru lægri vextir en þeir væntu í könnuninni í ágúst sl. en svo virðist sem lækkun vaxta bankans í ágúst hafi komið þeim á óvart og höfðu þeir gert ráð fyrir að vextirnir yrðu lækkaðir í nokkrum skrefum á næsta ári.

Þegar könnunin var framkvæmd taldi um 29% svarenda taumhald peningastefnunnar vera hæfilegt sem er 13 prósentum hærra hlutfall en í síðustu könnun. Hlutfall þeirra sem töldu taumhald peningastefnunnar of laust eða alltof laust var svipað eða um 7% og hlutfall þeirra sem töldu taumhaldið of þétt eða alltof þétt lækkaði um tæplega 15 prósentur, í 64%.

Í könnuninni í nóvember voru markaðsaðilar spurðir hverja þeir telja vera meginástæðu lækkunar ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisbréfa frá miðjum ágúst sl. fram í miðjan október. Tæplega helmingur svarenda taldi vaxtalækkun Seðlabankans í ágúst og/eða væntingar um frekari vaxtalækkanir vera meginástæður þessarar lækkunar á skuldabréfamarkaði. Markaðsaðilar voru auk þess spurðir hvaða áhrif, ef einhver, leiðrétting Hagstofunnar á verðbólguútreikningi sem birt var í september sl. hafði á verðbólguvæntingar þeirra. Rúmlega helmingur svarenda sagði leiðréttinguna hafa hækkað verðbólguvæntingar sínar lítillega eða nokkuð til skemmri tíma (1-2 ára) en haft lítil eða engin áhrif á væntingar til lengri tíma (5-10 ára) en tæplega helmingur svarenda sagði mistökin ekki hafa haft nein áhrif á verðbólguvæntingar sínar.

Sjá væntingakönnunina hér: Væntingakönnun markaðsaðila á 4. ársfj. 2016

Frekari upplýsingar um væntingakönnun markaðsaðila má finna hér: Væntingakönnun markaðsaðila

Til baka