logo-for-printing

02. september 2016

Greiðslujöfnuður og erlend staða þjóðarbúsins á öðrum ársfjórðungi 2016

Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á öðrum ársfjórðungi 2016 og stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins1.

Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 31,8 ma.kr. á ársfjórðungnum samanborið við 12,3 ma.kr. fjórðunginn á undan. Þetta er níundi ársfjórðungurinn í röð sem viðskiptajöfnuðurinn er hagstæður. Vöruskiptajöfnuður var óhagstæður sem nam 38,5 ma.kr. en þjónustujöfnuður2 mældist hagstæður um 62,2 ma.kr. Jöfnuður frumþáttatekna var hagstæður um 12,5 ma.kr. en rekstrarframlög óhagstæð um 4,5 ma.kr.

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.070 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 4.094 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 24 ma.kr. eða sem nam 1,1% af VLF. Nettóskuldir lækkuðu um 40 ma.kr. eða sem nam 1,8% af VLF á milli ársfjórðunga. Gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands hinn 16. júní sl. hafði þau áhrif að skuldir í íslenskum krónum lækkuðu um 83 ma.kr. og á móti lækkaði gjaldeyrisforðinn um 54 ma.kr. Niðurstaða útboðsins leiddi því til hagstæðari erlendrar stöðu þjóðarbúsins sem nam um 29 ma.kr.3 Á ársfjórðungnum greiddu félögin sem stofnuð voru á grunni slitabúa gömlu viðskiptabankanna samtals 82 ma.kr. inn á skuldabréf í eigu erlendra kröfuhafa. Í lok fjórðungsins nam skuld þeirra 566 ma.kr. sem síðar verður greidd eftir því sem sölu eigna vindur fram.4 Skuldir félaganna í lok fyrsta ársfjórðungs 2016 hafa verið endurskoðar en þær reyndust mun lægri en áætlað var við síðustu birtingu. Áhrif þessa er betri erlend staða þjóðarbúsins í lok fyrsta ársfjórðungs 2016 sem nemur rúmum 70 ma.kr. eða 3,1% af VLF.5

Hrein fjármagnsviðskipti leiddu til um 28 ma.kr. bættrar erlendrar stöðu þjóðarbúsins. Þar af lækkuðu erlendar eignir um 181 ma.kr. og skuldir um 210 ma.kr. vegna viðskiptanna. Gengis- og verðbreytingar höfðu jákvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins eða um 44 ma.kr. á ársfjórðungnum. Gengi krónunnar hækkaði gagnvart helstu gjaldmiðlum eða að jafnaði um 3,4% miðað við gengisskráningarvog. Mest hækkaði gengi krónunnar gagnvart sterlingspundi eða um 7,2%.

                                                                                                                                                                                                                                                                                                               Nr. 23/2016
2. september 2016

 

Hér má sjá fréttina í heild með töflum og neðanmálstilvísunum.

Hagtölur

Nánari upplýsingar veita Ríkarður Bergstað Ríkarðsson og Pétur Örn Sigurðsson á upplýsingasviði Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

Til baka