logo-for-printing

10. ágúst 2016

Rannsóknarritgerð um fjármálasveifluna á Íslandi

Working Paper

Út er komin rannsóknarritgerð nr. 72, „The long history of financial boom-bust cycles in Iceland - Part II: Financial cycles“, eftir Bjarna G. Einarsson, Kristófer Gunnlaugsson, Þorvarð Tjörva Ólafsson og Þórarin G. Pétursson. Um er að ræða framhald af rannsóknarritgerð nr. 68 sem birtist fyrir ári síðan sem fjallaði um fjármálakreppur á Íslandi yfir hartnær 150 ára tímabil. Í þessari ritgerð er kastljósinu beint að samspili ýmissa fjármálastærða sem birtist í því sem kallað hefur verið fjármálasveiflan (e. financial cycle), samspil hennar við innlenda hagsveiflu og hlutverk hennar í fjármálakreppum hér á landi. Ritgerðin fjallar einnig um sterk tengsl innlendrar fjármálasveiflu við samsvarandi alþjóðlega fjármálasveiflu.

Claudio Borio, aðalhagfræðingur Alþjóðagreiðslubankans, sagði nýlega: „þjóðhagfræði án fjármálasveiflunnar er eins og Hamlet án prinsins“ (Borio, 2014, bls. 183). Ritgerðin svarar kalli hans og tekst á við tilvistarspurningu prinsins í íslensku samhengi. Niðurstöðurnar benda ótvírætt til tilvistar vel skilgreindrar fjármálasveiflu á Íslandi sem hefur vaxið ásmegin eftir því sem fjármálakerfið hefur orðið þróaðra og þjóðarbúskapurinn margslungnari. Með notkun gagna sem ná yfir meira en heila öld og innihalda gögn um útlán, húsnæðisverð og stærð og samsetningu efnahagsreikninga banka fæst fjármálasveifla sem að jafnaði nær yfir sextán ár og er því mun lengri en venjuleg hagsveifla. Niðurstöðurnar sýna að verulegur munur er á efnahagsumsvifum á mismunandi stigum fjármálasveiflunnar sem bendir til þess að hún hafi leikið mikilvægt hlutverk í innlendri hagþróun. Því sem næst allir toppar fjármálasveiflunnar haldast í hendur við einhverskonar fjármálakreppu og fjármálauppsveiflur virðast áreiðanlegur fyrirboði um væntanlega fjármálakreppu. Ótrúlega sterk tengsl virðast á milli fjármálasveiflunnar á Íslandi og alþjóðlegu fjármálasveiflunnar (nálguð með fjármálasveiflunni í Bandaríkjunum) og toppar íslenska fjármálasveiflan nánast alltaf á svipuðum tíma og sú alþjóðlega. Niðurstöðurnar benda til þess að erfitt sé að skilja efnahagsþróun á Íslandi án þess að skilja fjármálasveifluna og voðinn geti verið vís sé hún hundsuð. Greininni líkur með umfjöllun um helstu hagstjórnarspurningar sem niðurstöðurnar vekja.

Rannsóknarritgerðir Seðlabankans má nálgast hér: Rannsóknarritgerðir.
 
Tengt efni:
Gagnasafn sem greiningin í ritgerðinni byggir á.

Erindi um fjármálasveifluna á Íslandi á ráðstefnum og málstofum, bæði innanlands og erlendis:

Erindi á norrænni rannsóknarráðstefnu í Ebeltoft 12. ágúst 2016

Erindi á alþjóðlegri rannsóknarráðstefnu í Reykjavík 29. apríl 2016

Erindi á málstofu í Seðlabanka Danmerkur 12. apríl 2016

Erindi á alþjóðlegri rannsóknarráðstefnu í Makedóníu 7. apríl 2016

Erindi hjá Íslandsbanka 9. mars 2016

Málstofa í Seðlabanka Íslands 23. febrúar 2016

Til baka