logo-for-printing

24. júní 2016

Efnahagsleg áhrif þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Breta að ESB

Bygging Seðlabanka Íslands

Í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór á Bretlandi í gær varð niðurstaðan sú að Bretland muni hefja ferli útgöngu úr Evrópusambandinu. Það mun taka töluverðan tíma. Í framhaldi af þessari niðurstöðu hafa orðið sterk viðbrögð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sem einkennast af umtalsverðum breytingum á gengi gjaldmiðla og flótta í áhættuminni eignir. Af þessu tilefni hefur Seðlabanki Íslands ákveðið að birta minnisblað sem hann sendi stjórnvöldum síðastliðinn miðvikudag um hugsanleg áhrif af þeirri niðurstöðu úr þjóðaratkvæðagreiðslunni sem nú liggur fyrir á íslenskan þjóðarbúskap og fjármálamarkað. Samkvæmt minnisblaðinu er reiknað með að áhrifin verði líklegast neikvæð en ekki veruleg, sérstaklega þegar frá liður. Í þessu sambandi ber að undirstrika að íslenskar fjármálastofnanir hafa góða eiginfjárstöðu, bera takmarkaða áhættu gagnvart eignum í breskum pundum og eru vel fjármagnaðar í erlendum gjaldmiðlum. Þá er gjaldeyrisforði stærri en í mjög langan tíma í sögu þjóðarinnar og fjármagnshöft draga úr sveiflum í fjármagnsflæði. Seðlabankinn mun fylgjast náið með þróun alþjóðlegra og innlendra fjármálamarkaða næstu daga og endurmeta stöðuna eftir því sem ástæða kann að verða til.

Minnisblað Seðlabankans til stjórnvalda má nálgast hér: 

Minnisblað Seðlabanka Íslands um efnahagsleg áhrif þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Breta að ESB

Til baka