logo-for-printing

16. desember 2013

Tilkynning um fyrirkomulag á skráningu og sölu á eignum Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf.

ESÍ hyggst á næstu sex mánuðum hefja sölu á verðtryggðum skuldabréfum. Alls er um að ræða skuldabréf fyrir ríflega 100 milljarða króna og verða þau seld í áföngum á næstu fimm árum.

Í kjölfar sviptinganna sem urðu á íslenskum fjármálamarkaði haustið 2008 tók Seðlabanki Íslands yfir ýmsar eignir sem viðskiptabankar og aðrar fjármálastofnanir höfðu lagt að veði gegn lánum hjá Seðlabankanum. Jafnframt eignaðist Seðlabankinn almennar kröfur á hendur búum nokkurra fjármálafyrirtækja. Til þess halda utan um þessar eignir og kröfur stofnaði bankinn Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ).

Markmið ESÍ er að vinda ofan af félaginu og selja eignir þess. Einn af stærri eignaflokkum ESÍ eru samningsbundin sértryggð skuldabréf sem upprunalega voru gefin út af Kaupþingi banka hf. en síðar yfirtekin af Arion banka hf. Skuldabréfin eru verðtryggð með föstum vöxtum. Sjóður sem rekinn er af Stefni hf. stendur til tryggingar réttum efndum skuldabréfanna en eignir hans eru að meginhluta fasteignalán en einnig innlán. Arion banki er skuldbundinn til að halda eignastöðu sjóðsins yfir ákveðnum mörkum á meðan skuldabréfin eru útistandandi.

Þau bréf sem um ræðir eru í nokkrum flokkum og er uppreiknuð fjárhæð eignar ESÍ ríflega 103 ma.kr. miðað við 30. nóvember sl.

ESÍ ráðgerir að stofna félög (eða fagfjárfestasjóði) og leggja þeim til eign sína í umræddum samningsbundnum sértryggðum skuldabréfum. Félögin munu gefa út skuldabréf til ESÍ sem ætlunin er að skrá í Kauphöllinni (Nasdaq OMX Iceland).

ESÍ mun í byrjun eiga öll hin nýju skuldabréf en hyggst selja bréfin á allt að fimm árum. Gert er ráð fyrir að fyrsta sala eigi sér stað innan sex mánaða. Áætlun ESÍ gerir ráð fyrir að selja um fimmtung bréfanna á ári en sú áætlun kann að taka breytingum gefi markaðsaðstæður tilefni til. Endanlegar ákvarðanir um magn á hverjum tíma verða teknar að höfðu samráði við seðlabankastjóra í samræmi við eigendastefnu ESÍ.

ESÍ hefur ráðið Summu Rekstrarfélag hf. (www.summa.is) til þess að annast stýringu eigna félaganna og önnur tengd verkefni.

Fyrirkomulag sölu og nánari útfærsla á útgáfu skuldabréfanna verður tilkynnt síðar.

Nánari upplýsingar veitir Haukur C. Benediktsson framkvæmdastjóri ESÍ í síma 568 7744.

 

Nr. 43/2013
16. desember 2013

Til baka