logo-for-printing

29. nóvember 2013

Nýjar lausafjárreglur lánastofnana

Seðlabanki Íslands hefur gefið út nýjar reglur um lausafjárhlutfall nr. 1055/2013, í samræmi við ákvæði 12. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001. Reglurnar taka gildi 1. desember 2013 en á sama tíma falla úr gildi eldri reglur bankans um lausafjárhlutfall.

Lausafjárreglum er ætlað að tryggja að lánastofnun eigi ávallt nægt laust fé til að standa skil á fyrirsjáanlegum og hugsanlegum greiðsluskuldbindingum á tilteknu tímabili. Í kjölfar falls viðskiptabankanna var ljóst að endurskoða þyrfti lausafjárreglur Seðlabankans og að innleiða þyrfti endurbættar lausafjárreglur að viðbættum nýjum kröfum um lausafjárhlutfall í erlendum gjaldmiðlum. Meðal nýjunga í nýjum reglum er að kröfur um laust fé ná nú til samstæðu lánastofnana, liða utan efnahags auk þess sem lánastofnunum eru nú settar mun þrengri skorður við að treysta á lausafjárlínur í lausafjárstýringu sinni, enda reyndust lausafjárlínur mjög óáreiðanlegar þegar á reyndi í aðdraganda bankahrunsins árið 2008. Markmið nýrra reglna um laust fé í erlendum gjaldmiðlum er að draga úr lausafjáráhættu í erlendum gjaldmiðlum sem reyndist vera ein stærsta áhættan í aðdraganda bankahrunsins árið 2008. Breyting á lögum um Seðlabanka Íslands á sumarþingi renndi styrkari stoðum undir heimild bankans til að setja reglur um lausafjárhlutfall í erlendum gjaldmiðlum, en eins og fram kom í skýrslunni Varúðarreglur eftir fjármagnshöft (2012) eru slíkar reglur  hluti af þeirri varúðarumgjörð sem þarf að vera til staðar þegar fjármagnshöft verða losuð.  

Reglur þessar byggja á staðli Baselnefndarinnar um bankaeftirlit sem gefinn var fyrst út árið 2010 og  innleiðingu hans í Evrópurétt á þessu ári, þ.e.a.s. CRD IV löggjöfinni. Reglur Seðlabankans byggja þannig á alþjóðlegum reglum en eru aðlagaðar íslenskum aðstæðum. Það er meðal annars gert með því að gera kröfu um laust fé í erlendum gjaldmiðlum auk þess sem tekið er tillit til áhættu sem tengd er  slitum búa gömlu bankanna.  

Framundan er frekari vinna við reglur um lágmark stöðugrar fjármögnunar lánastofnana í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum. Slíkar reglur líta til lengri tíma en lausafjárreglur og miða að því að takmarka gjalddagamisræmi, einkum í erlendum gjaldmiðlum. Þetta er talið einkar mikilvægt í ljósi reynslunnar og með hliðsjón af losun fjármagnshafta þar sem lánastofnanir þurfa að vera vel í stakk búnar til að þola mögulegt útflæði skuldbindinga í erlendum gjaldmiðlum.

Reglur nr. 1055/2013, um lausafjárhlutfall o.fl., og leiðbeiningar með reglunum, má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Sigríður Benediktsdóttir framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

 

Frétt nr. 38/2013

29. nóvember 2013

Til baka