logo-for-printing

07. nóvember 2013

Væntingakönnun markaðsaðila

Dagana 28.–30. október sl. kannaði Seðlabanki Íslands væntingar markaðsaðila til ýmissa hagstærða, svo sem verðbólgu og vaxta. Leitað var til 36 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 20 aðilum og var svarhlutfallið því 56%.

Niðurstöður könnunarinnar í október sýna að væntingar markaðsaðila um ársverðbólgu hafa lækkað frá síðustu könnun sem framkvæmd var um miðjan ágúst sl. Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að ársverðbólga verði að meðaltali um 3,7% á fjórða fjórðungi þessa árs og 3,8% á fyrsta fjórðungi næsta árs sem er um 0,2-0,5 prósentum minni verðbólga en þeir gerðu ráð fyrir í síðustu könnun bankans.
Niðurstöður sýna einnig að markaðsaðilar vænta þess að ársverðbólga verði 4,0% bæði eftir eitt og tvö ár sem er um 0,2-0,5 prósentna lækkun frá síðustu könnun. Markaðsaðilar vænta jafnframt að ársverðbólga verði að meðaltali 4% á næstu fimm árum, sem er lækkun um 0,2 prósentur milli kannana, og á næstu tíu árum, líkt og í ágúst. Markaðsaðilar vænta þess að gengi krónu gagnvart evru verði 169 krónur eftir eitt ár sem er svipuð niðurstaða og í síðustu könnun.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að veðlánavextir Seðlabankans haldist óbreyttir í 6% fram á fyrsta ársfjórðung 2014 en að vextirnir hækki um 0,25 prósentur á öðrum fjórðungi þess árs. Niðurstöðurnar gefa jafnframt til kynna að markaðsaðilar vænta 0,25 prósentna viðbótarhækkunar til loka næsta árs og að vextirnir verði þá 6,5%. Þegar könnunin var framkvæmd álitu 60% markaðsaðila taumhald peningastefnunnar vera hæfilegt, 5% töldu það hins vegar vera of laust og 25% töldu það of þétt.

Sjá væntingakönnunina hér: Væntingakönnun markaðsaðila 4F/2013 

Sjá ennfremur: Væntingakönnun markaðsaðila

Til baka