logo-for-printing

21. ágúst 2013

Yfirlýsing peningastefnunefndar 21. ágúst 2013

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum.

Samkvæmt uppfærðri spá sem nú er birt í Peningamálum mun hagvöxtur í ár verða tæplega 2%, sem er svipað og spáð var í maí. Hagvaxtarhorfur fyrir næstu tvö ár hafa hins vegar versnað og er nú spáð tæplega 3% hagvexti á ári í stað ríflega 3%, sem einkum má rekja til minni fjárfestingar í orkufrekum iðnaði á næstu misserum. Batinn á vinnumarkaði hefur reynst kröftugri en spáð var í maí og er gert ráð fyrir að hann haldi áfram.

Samkvæmt spánni mun verðbólga aukast lítillega á seinni hluta ársins en taka að hjaðna á ný í átt að markmiði frá og með byrjun næsta árs. Verði launahækkanir í samræmi við verðbólgumarkmið mun verðbólga að öðru óbreyttu hjaðna hraðar og vextir verða lægri en ella.

Stefna um viðskipti Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði sem kynnt var í maí hefur stuðlað að minni sveiflum krónunnar og litlar breytingar hafa orðið á gengi hennar frá síðasta fundi peningastefnunefndar. Enn sem komið er hefur þessi þróun þó ekki leitt til lækkunar verðbólguvæntinga.

Peningastefnan hverju sinni þarf að taka mið af stefnunni í opinberum fjármálum og öðrum þáttum sem hafa áhrif á eftirspurn í þjóðarbúskapnum. Óvissa ríkir um áform í opinberum fjármálum á komandi árum en þau munu skýrast með fjárlagafrumvarpi í byrjun október. Brýnt er að jöfnuður náist á ríkissjóði sem fyrst þannig að samspil stefnunnar í peninga- og ríkisfjármálum stuðli með sem minnstum tilkostnaði að ytra jafnvægi þjóðarbúsins, efnahagslegum stöðugleika og verðbólgu í samræmi við markmið.

Laust taumhald peningastefnunnar hefur á undanförnum misserum stutt við efnahagsbatann. Áfram gildir að eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Að hve miklu leyti aðlögunin á sér stað með breytingum nafnvaxta Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar, sem ræðst að miklu leyti af þróun launa og gengishreyfingum krónunnar. 
Nr. 26/2013
21. ágúst 2013

Vextir Seðlabanka Íslands verða eftir ákvörðunina sem hér segir: 
Daglánavextir: 7,00% 
Vextir af lánum gegn veði til sjö daga: 6,00% 
Hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum: 5,75% 
Innlánsvextir: 5,00%


Vextir við Seðlabanka Íslands 21. ágúst 2013

Til baka