logo-for-printing

26. júní 2013

Ársfundur Alþjóðagreiðslubankans

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti ársfund Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss (Bank for International Settlements - BIS) sem var haldinn 23. júní síðastliðinn. Alþjóðagreiðslubankinn er hlutafélag í eigu sextíu seðlabanka og er vettvangur alþjóðlegs samstarfs seðlabanka, auk þess að vera rannsóknarsetur og banki fyrir seðlabanka heimsins. Á fundinum var lögð fram ársskýrsla BIS en í henni er auk reikninga bankans greinargerð um ástandið í heimsbúskapnum og fjallað er um þau viðfangsefni sem helst snúa að seðlabönkum.

Á fundinum flutti Jaime Caruana, aðalframkvæmdastjóri Alþjóðagreiðslubankans, ræðu sem byggðist á efni skýrslunnar. Í ársskýrslunni og ræðu aðalframkvæmdastjórans er lögð áhersla á að takmörk séu fyrir því hvað seðlabankar geta og eiga að gera og nú sé komið að öðrum stjórnvöldum að skapa forsendur varanlegs hagvaxtar.

Í tengslum við ársfundinn var Sir Andrew Crockett, fyrrverandi aðalframkvæmdastjóra Alþjóðagreiðslubankans, minnst en hann lést á síðasta ári. Sir Andrew heimsótti Ísland í júní árið 2004 og hélt erindi á ráðstefnu sem Seðlabanki Íslands skipulagði í samvinnu við samtökin SUERF. Haldinn var fyrsti fyrirlestur á vegum Alþjóðagreiðslubankans í nafni Sir Andrew Crockett. Það var Raghuram Rajan, prófessor við háskólann í Chicago, sem hélt þann fyrirlestur og fjallaði hann um óvenjulega peningastefnu í framhaldi af alþjóðlegu fjármálakreppunni sem hófst á miðju ári 2007. Einnig sótti seðlabankastjóri árlega ráðstefnu sem Alþjóðagreiðslubankinn heldur fyrir ársfund sinn og fjallaði hún að þessu sinni um hlutverk peningastefnunnar í efnahagskreppu og endurbata. Þá tók seðlabankastjóri þátt í umræðum á fundi lítilla ríkja með sjálfstæða mynt.

Reikningar Alþjóðagreiðslubankans eru gerðir upp í sérstökum dráttarréttindum (SDR). Á síðasta reikningsári, sem lauk 31. mars 2013, nam hreinn hagnaður bankans 898,2 milljónum SDR eða sem svarar um 168 milljörðum króna. Á ársfundinum var ákveðið að greiða arð sem nemur 315 SDR á hlut. Þar sem Seðlabanki Íslands á þúsund hluti í bankanum fær hann greiddan arð sem nemur um 58 milljónum króna.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.

Nr. 22/2013
26. júní 2013 
 

Tenglar:
Ársskýrsla, sjá hér: http://www.bis.org/publ/arpdf/ar2013e.htm  
Ræða aðalframkvæmdastjóra, Jaime Caruana, sjá hér: http://www.bis.org/speeches/sp130623.htm  
Fyrirlestur Raghuram Rajan, sjá hér: http://www.bis.org/events/agm2013/sp130623.htm
Opnunarræða Stephen Cecchetti á ráðstefnu BIS, sjá hér:  http://www.bis.org/speeches/sp130620.htm 


Til baka