logo-for-printing

03. júní 2013

Undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins í lok fyrsta ársfjórðungs 2013

Sjá hér fréttina í heild með töflu um undirliggjandi erlenda stöðu þjóðarbúsins: Undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins í lok fyrsta ársfjórðungs 2013

Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á fyrsta ársfjórðungi 2013 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Til frekari upplýsinga birtir Seðlabankinn nú samhliða mat á undir-liggjandi hreinni erlendri stöðu þjóðarbúsins. Við mat á undirliggjandi stöðu er lagt mat á þá stöðu sem mun birtast þegar innlendar og erlendar eignir innlánsstofnana í slitameðferð hafa verið seldar og andvirði þeirra ráðstafað til kröfuhafa. Jafnframt er horft framhjá nokkrum innlendum fyrirtækjum, öðrum en fjármálafyrirtækjum, sem unnið er að slitum á (sjá nánari útskýringar í Sérriti 9: Undirliggjandi erlend staða og greiðslujöfnuður, sem gefið var út 18. mars sl.). Seðlabankinn hefur á undanförnum misserum einnig horft framhjá áhrifum lyfjafyrirtækisins Actavis við mat bankans á undirliggjandi erlendri stöðu þjóðarbúsins. Í lok sl. árs var Actavis selt og í framhaldinu voru eignir og skuldir félagsins stokkaðar upp. Við þetta minnkuðu áhrif Actavis á erlenda stöðu þjóðarbúsins verulega og telur Seðlabankinn ekki lengur forsendur fyrir því að taka félagið sérstaklega út úr erlendri stöðunni, þrátt fyrir að áhrif þess á hreinu stöðuna séu enn nokkur eða neikvæð um 11% af vergri landsframleiðslu í lok fyrsta ársfjórðungs 2013.

Við mat á eignum innlánsstofnana í slitameðferð er notað bókfært virði þeirra samkvæmt uppgjörum slitastjórnanna. Við skiptingu kröfuhafa í innlenda og erlenda aðila er farið eftir samþykktum kröfum samkvæmt kröfuhafaskrám, greint niður á undirliggjandi eigendur. Rétt er að geta þess að óvissa er um virði eigna innlánsstofnana í slitameðferð og um hlutfallslega skiptingu kröfuhafa í innlenda og erlenda. Þættir svo sem uppgjörsgengi gjaldmiðla, skuldajafnanir og niðurstöður úr ágreiningi um tilteknar kröfur munu skera endanlega úr um stöðu búanna og þar með um áhrif uppgjöranna á erlenda stöðu þjóðarbúsins.

Undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins

Hrein staða við útlönd var neikvæð um 8.249 ma.kr. eða 479% af vergri landsframleiðslu við lok fyrsta ársfjórðungs 2013. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð var staðan neikvæð um 453 ma.kr. eða 26% af vergri landsframleiðslu. Talið er að slit innlánsstofnana í slitameðferð hafi neikvæð áhrif á hreinu stöðuna sem nemur 43% af
vergri landsframleiðslu en að taka út önnur fyrirtæki sem unnið er að slitum á hafi jákvæð áhrif sem nemi 4% af vergri landsframleiðslu. Undirliggjandi erlend staða miðað við reiknað uppgjör innlánsstofnanna í slitameðferð og án fyrirtækja sem unnið er að slitum á er því metin neikvæð um 65% af landsframleiðslu. Rétt er að ítreka að þessi tala er ekki fyllilega samanburðarhæf við fyrri birtingar Seðlabankans þar sem áhrif lyfjafyrirtækisins Actavis eru ekki sérstaklega teknar út úr undirliggjandi stöðunni. Ef leiðrétt væri fyrir Actavis með svipuðum hætti og gert var í sérriti bankans frá því í mars síðastliðnum eða í skýrslu bankans um fjármálastöðugleika sem gefin var út í apríl síðastliðnum yrði niðurstaðan heldur betri en kom fram í þessum ritum, eða neikvæð um 54% af vergri landsframleiðslu, samanborið við 60% í mars og 58% í apríl.

Nánari upplýsingar veitir Eggert Þ. Þórarinsson á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

Nr. 18/2013
3. júní 2013

Til baka