logo-for-printing

16. apríl 2013

Arnór Sighvatsson endurskipaður aðstoðarseðlabankastjóri

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur með bréfi dagsettu 12. apríl 2013 skipað Arnór Sighvatsson á ný í starf aðstoðarseðlabankastjóra. Skipunin gildir til fimm ára frá og með 1. júlí 2013.

Arnór Sighvatsson var fyrst settur í starf aðstoðarseðlabankastjóra 27. febrúar 2009 til bráðabirgða og svo skipaður til fjögurra ára frá og með 1. júlí 2009 í samræmi við 1. mgr. ákvæðis III til bráðabirgða með lögum nr. 26/2009.

Samkvæmt 23. gr. laga nr. 36/2001 með síðari breytingum er ráðherra aðeins heimilt að skipa sama mann aðstoðarseðlabankastjóra tvisvar sinnum. Samkvæmt 23. grein laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins framlengist skipunartími sjálfkrafa ef starf er ekki auglýst sex mánuðum áður en fyrri skipunartími rennur út, sem var í tilviki aðstoðarseðlabankastjóra við síðustu áramót.

Arnór Sighvatsson lauk doktorsprófi í hagfræði frá Northern Illinois University árið 1990. Hann hóf störf í Seðlabanka Íslands árið 1990, var aðalhagfræðingur og framkvæmdastjóri hagfræðisviðs frá árinu 2004 og settur aðstoðarseðlabankastjóri í febrúar árið 2009.

 

Nr. 13/2013
16. apríl 2013

Til baka