logo-for-printing

03. apríl 2013

Málstofa: Hvað gerist þegar peningamagn í umferð er nær fjórfaldað á fjórum árum?

Í dag, miðvikudaginn 3. apríl kl. 15:00 verður haldin málstofa í fundarsal Seðlabanka Íslands, Sölvhóli.

Efni málstofunnar er: Hvað gerist þegar peningamagn í umferð er nær fjórfaldað á fjórum árum?

Frummælandi: Ásgeir Jónsson

Á árunum 2004 til 2008 jókst peningamagn í umferð (M3) gríðarlega á Íslandi og er nú rúmlega 90% af landsframleiðslu. Í þessum fyrirlestri er farið yfir það hvernig þessi aukning átti sér stað; annars vegar með lækkun bindiskyldunnar 2003 og síðan víkkun á veðhæfi í endurhverfanlegum viðskiptum Seðlabankans árið 2008 samhliða útgáfu „ástarbréfa“ af hálfu viðskiptabankanna. Fjallað er um afleiðingar þessarar miklu peningaprentunar í ljósi klassískra og keynesískra kenninga um áhrif peningamagns á efnahagslíf, eignaverð og verðbólgu. Þeirri spurningu er varpað upp hvaða áhrif samspil hafta og mikils peningamagns í umferð geti haft í náinni framtíð, og hvort of mikið lausafé í fjármálakerfinu sé einmitt ein helsta fyrirstaðan fyrir afnámi hafta. Að lokum er velt upp nokkrum tillögum til lausnar, einkum hvernig hægt er að draga saman peningamagn í umferð samhliða uppgjöri við kröfuhafa gömlu bankanna.
Til baka