logo-for-printing

19. mars 2013

Ný rannsóknarritgerð um íslensku hagsveifluna í alþjóðlegu samhengi

Út er komin rannsóknarritgerð nr. 63, „On our own? The Icelandic business cycle in an international context“, eftir Bjarna G. Einarsson, Guðjón Emilsson, Svövu J. Haraldsdóttur, Þórarinn G. Pétursson og Rósu B. Sveinsdóttur. Í ritgerðinni eru kynntar niðurstöður greiningar á íslensku hagsveiflunni og hún sett í alþjóðlegt samhengi. 
 
Í ritgerðinni eru eiginleikar íslensku hagsveiflunnar kannaðir og tengsl hennar við hagsveiflur annarra þróaðra ríkja metin. Byrjað er á að tímasetja íslensku hagsveifluna og meta meðallengd og sveifluvídd þenslu- og samdráttarskeiða. Því næst er hagsveifluþáttur fjölda hagstærða fundinn og helstu einkennum íslensku hagsveiflunnar lýst. Niðurstöðurnar fyrir innlendu hagsveifluna eru einnig bornar saman við niðurstöður sambærilegrar greiningar á hagsveiflum annarra þróaðra ríkja. Að lokum eru undirliggjandi kerfisskellir metnir með lang-tíma skilyrða á kerfisform margvíðs tímaraðalíkans (e. structural vector autoregressive model) og tengsl þessara skella á Íslandi við sambærilega skelli í öðrum þróuðum ríkjum könnuð. Niðurstöðurnar benda til þess að þrátt fyrir að einkenni íslensku hagsveiflunnar séu svipuð einkennum hagsveiflna annarra þróaðra ríkja hvað margt varðar eru engu að síður mikilvægar undantekningar þar á. Auk þess benda niðurstöðurnar til þess að íslenska hagsveiflan sé að miklu leyti ótengd hagsveiflum annarra þróaðra ríkja. Þessar niðurstöður eru mikilvægar fyrir innlenda hagstjórn og eru gagnlegar sem viðmið við líkanagerð fyrir íslenska hagkerfið. Niðurstöðurnar eru einnig mikilvægt innlegg í mat á hagkvæmasta gjaldmiðils- og gengisfyrirkomulagi fyrir Ísland.

Rannsóknarritgerðir Seðlabanka Íslands má nálgast hér: Rannsóknarritgerðir

Til baka