logo-for-printing

21. febrúar 2013

Yfirlýsing seðlabankastjóra um gengis- og gjaldmiðlastefnu

21. febrúar 2013

Yfirlýsing seðlabankastjóra vegna umræðu um gengis- og gjaldmiðlastefnu í framhaldi af viðtali við fréttaveitu Bloomberg

Hinn 19. febrúar sl. birti Bloomberg-fréttaveitan frétt á ensku þar sem er að finna nokkrar setningar úr viðtali sem fréttaritari veitunnar hafði tekið við mig á íslensku. Í fréttinni er hins vegar að finna alls kyns staðhæfingar sem eru blaðamannsins þó á stundum sé óbeint gefið í skyn að þær eigi stoð í skoðunum mínum. Úr þessu öllu verður villandi mynd. Hún skekkist síðan enn frekar þegar birtar eru fréttir á íslensku upp úr viðtalinu og hugtök breytast í þýðingunni.

Dæmi um það er þegar ég minnist á erfiðleikana fyrir lítil lönd með óheftar fjármagnshreyfingar að búa við hreint flotgengi. Það verður í fréttaflutningi að vanda lítilla þjóða við að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil, sem er annað. Lausnin á því vandamáli sem ég er að fjalla um þarf ekkert endilega að felast í því að taka upp aðra mynt. Hinn möguleikinn er sá sem ég hef kallað verðbólgumarkmið plús, þ.e. að í stað hreins flotgengis sé flotið stýrt, eins og hefur gagnast mörgum Asíuþjóðum mjög vel (t.d. Singapore), og peningastefnan studd með betri varúðarreglum í fjármálakerfinu, sveigjanlegum stýritækjum sem leggjast gegn upphleðslu fjármálaáhættu og betra samspili ríkisfjármálastefnu og peningastefnu.

Annað dæmið er þegar fullyrt er að ég segi að það sé ómögulegt að láta íslensku krónuna fljóta á ný án einhvers konar hafta. Þetta hef ég ekki sagt. Þvert á móti hef ég haldið því fram að við þyrftum að þróa þann kost að vera með sveigjanlegt gengi en draga þó úr umframsveiflum með ýmsum hætti (stýrt flot) og takmarka gjaldeyrisáhættu með varúðarreglum. Einhverjir kunna að kalla það höft en ég bendi á að ekki er um að ræða höft á fjármagnsflutninga fyrirtækja og heimila yfir landamæri, heldur fyrst og fremst hömlur á áhættutöku fjármálafyrirtækja og spákaupmennsku.

Í frétt Bloomberg eru beinar tilvitnanir í mig sem þegar grannt er skoðað stangast ekki á við það sem ég hef áður sagt (þó svo að fréttin sem slík geri það). Það getur hver sem er kynnt sér með því að hlusta á síðasta Sprengisand á Bylgjunni, þar sem ég tala beint og milliliðalaust til hlustenda, inngang minn að stóru gjaldmiðlaskýrslu Seðlabankans sem gefin var út sl. haust, svo og skýrslurnar Peningastefna eftir höft og Varúðarstefna eftir fjármagnshöft. Þá er væntanlegt við mig blaðaviðtal sem skýrir sum þessara atriða betur. Niðurstaðan úr öllu þessi efni er að við höfum fyrst og fremst einn kost til skemmri tíma litið, þ.e. betri krónu, en litið lengra fram á veg gætum við staðið frammi fyrir valkostunum betri króna eða betri evra. Hvor vinnur er ekki hægt að segja til um nú því það veltur m.a. á því hversu vel tekst til með umbætur á hvorum staðnum fyrir sig.

 

Már Guðmundsson
seðlabankastjóri.

Til baka