logo-for-printing

19. febrúar 2013

Seðlabanki Íslands á í gjaldeyrisviðskiptum sem draga úr gjaldeyrismisvægi

Seðlabanki Íslands hefur átt í framvirkum gjaldeyrisviðskiptum sem draga úr gjaldeyrismisvægi í bankakerfinu og létta þrýstingi af krónunni á komandi mánuðum. Samningurinn felur í sér að næstu mánuði afhendir Seðlabanki Íslands evrur gegn krónum að andvirði 6 milljarðar króna. Gjaldeyrisforðinn lækkar um sömu fjárhæð á næstu mánuðum. Á móti kemur að það dregur úr söfnun gjaldeyris.

Í kjölfarið á falli viðskiptabankanna í október 2008 var misvægi milli erlendra eigna og skulda í efnahagsreikningum ýmissa innlendra fjármálafyrirtækja langt umfram æskileg mörk. Þetta misvægi jók áhættu í rekstri fjármálafyrirtækja og kallaði á aukna eiginfjárbindingu. Eins og seðlabankastjóri greindi frá í ræðu sinni á ársfundi Seðlabanka Íslands í mars 2010 hefur bankinn leitað leiða til að draga úr ofangreindum vanda og koma fjármálakerfinu í betra jafnvægi á nýjan leik og stuðla þannig að fjármálastöðugleika. Nánar er fjallað um gjaldeyrismisvægi fjármálastofnana í riti bankans, Fjármálastöðugleiki 2012-1 og 2012-2.

Undir lok ársins 2010 átti Seðlabankinn í gjaldeyrisviðskiptum þar sem bankinn seldi 72,5 milljarða króna gegn gjaldeyri í framvirkum viðskiptum. Þau drógu verulega úr gjaldeyrismisvægi í bankakerfinu á þeim tíma. Samantekið munu þessi viðskipti og þau sem nú eru gerð auka gjaldeyrisforða Seðlabankans á samningstímanum um 75,4 milljarða króna, miðað við núverandi gengi, en viðskiptin tengjast að því leyti að Seðlabankinn er milliliður í því að jafna afgang og halla á milli aðila í kerfinu. Gjaldeyrismisvægi bankanna er þó ekki veigamesta skýring á veikingu krónunnar á undanförnum mánuðum. Þar vegur þyngra veiking viðskiptakjara og þungar afborganir erlendra lána af hálfu aðila sem ekki hafa aðgang að erlendum lánamörkuðum um þessar mundir.

Í upphafi árs ákvað Seðlabankinn, í ljósi aðstæðna, að hætta um hríð kaupum á erlendum gjaldeyri og styðja við gengi krónunnar með inngripum á gjaldeyrismarkaði. Samningurinn mun draga úr þörf á inngripum á næstunni en ekki er þar með hægt að fullyrða að þau verði óþörf.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.

 

Frétt nr. 5/2013
19. febrúar 2013

Til baka