logo-for-printing

10. janúar 2013

Ný rannsóknarritgerð

Út er komin rannsóknarritgerð nr. 60, „The production and export structure of the Icelandic economy: An international comparison“, eftir Bjarna G. Einarsson, Guðjón Emilsson, Svövu J. Haraldsdóttur, Ólaf Ö. Klemensson, Þórarinn G. Pétursson og Rósu B. Sveinsdóttur. Í ritgerðinni eru kynntar niðurstöður greiningar á uppbyggingu framleiðslu og útflutnings í íslenska hagkerfinu og þær bornar saman við önnur þróuð ríki.

Niðurstöður greiningarinnar sýna að hlutur atvinnugreina af heildarvinnsluvirði og fjármunamyndun á Íslandi er mjög svipaður og í öðrum þróuðum ríkjum að undanskildu miklu vægi sjávarútvegs á Íslandi. Uppbygging og skipulag fyrirtækja er einnig í grófum dráttum sambærileg á Íslandi og í öðrum þróuðum ríkjum. Þrátt fyrir smæð hagkerfisins og einhæfni innlendrar framleiðslu er umfang alþjóðaviðskipta á Íslandi ekki marktækt frábrugðið meðaltali þróaðra ríkja. Íslenska hagkerfið er hinsvegar tiltölulega samþætt hvað varðar alþjóðleg fjármál, mælt sem umfang erlendra eigna og skulda sem hlutfall af landsframleiðslu. Evrópusambandsríkin og evrusvæðið eru mikilvægustu útflutningsmarkaðir Íslands og eru einungis örfá Evrópulönd með hærra hlutfall af sínum útflutningi til Evrópusambandsins og evrusvæðisins. Íslenskur útflutningur er hins vegar mun fábreyttari og frábrugðinn útflutningi annarra þróaðra ríkja þar sem vægi hrávöru og matvæla í útflutningi er mun meira en í öðrum þróuðum ríkjum. Að auki er þróunarstig íslenskrar útflutningsstarfsemi lægra en í öðrum ríkjum á sama tekjustigi og eru útflutningsatvinnugreinar laustengdari annarri framleiðslustarfsemi en þekkist víðast hvar. Þrátt fyrir sérhæfðan og einfaldan útflutningsgrunn eru sveiflur í útflutningi og viðskiptakjörum hins vegar minni en almennt gerist í öðrum hrávöruútflutningsiðnríkjum.

Rannsóknarritgerðir Seðlabanka Íslands má nálgast hér: Rannsóknarritgerðir

Til baka