logo-for-printing

15. október 2012

Ársfundur AGS 2012

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var haldinn i Tokyo 12. október sl. og fundur fjárhagsnefndar sjóðsins daginn eftir hinn 13. október. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti fundina, en hann er fulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Seðlabankastjóri átti einnig fundi með yfirstjórnendum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fulltrúum matsfyrirtækja og alþjóðlegra bankastofnana. Á sunnudag tók seðlabankastjóri þátt í fundi i ráði verndara alþjóðlegra viðmiðunarreglna um fjármagnshreyfingar og skipulagt skuldauppgjör (Group of Trustees of the Principles for Stable Capital Flows and Fair Debt Restructuring). Meðal verkefna er að þróa og standa vörð um reglur sem þróaðar hafa verið samvinnu Alþjóðasamtaka fjármálafyrirtækja og opinberra alþjóðlegra stofnana ( e. Institute of International Finance).

Ársfundarræða kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltslanda var flutt af Nils Bernstein seðlabankastjóra Danmerkur. Fulltrúi kjördæmisins í fjárhagsnefnd AGS var að þessu sinni fjármálaráðherra Svíþjóðar, Anders Borg. Ársfundarræðuna og yfirlýsingu kjördæmisins í fjárhagsnefnd AGS má nálgast hér að neðan.

Í ályktun fjárhagsnefndar AGS kemur m.a. fram að hagvaxtarhorfur alþjóðahagkerfisins hafa versnað þótt spáð sé áframhaldandi hagvexti. Umtalsverð áhætta er enn til staðar. Tilkynnt hefur verið um mikilvægar stefnumótandi aðgerðir á alþjóðavettvangi, en skilvirk framfylgni þeirra er nauðsynleg til að endurreisa tiltrú og stuðla að öflugum, haldbærum og jöfnum hagvexti. Þróuð ríki heims þurfa að ráðast í nauðsynlegar kerfisumbætur og auka trúverðugleika ríkisfjármála. Á sama tíma er áhætta að aukast hjá nýmarkaðsríkjum og þau þurfa að viðhalda ákveðnum sveigjanleika í efnahagsstefnu sinni til að geta brugðist við áföllum og stutt við hagvöxt.

Sjá nánar:

Ályktun fjárhagsnefndar AGS 2012 

Ársfundarræða kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja 2012 (Nils Bernstein seðlabankastjóri í Danmörku) (pdf)

Yfirlýsing kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja 2012 (Anders Borg, fjármálaráðherra í Svíþjóð) (pdf)

Til baka