logo-for-printing

03. september 2012

Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins á öðrum ársfjórðungi 2012 og erlend staða þjóðarbúsins

Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á öðrum ársfjórðungi 2012 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Viðskiptajöfnuður mældist óhagstæður um 49,6 ma.kr. á ársfjórðungnum samanborið við 47,1 ma.kr. fjórðunginn á undan. Afgangur af vöruskiptum við útlönd var 12,8 ma.kr. og 12 ma.kr. á þjónustuviðskiptum. Jöfnuður þáttatekna var hinsvegar neikvæður um 74,4 ma.kr. Viðskiptajöfnuður án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var óhagstæður um 14 ma.kr. samanborið við 16,7 ma.kr. fjórðunginn á undan.

Halli á þáttatekjum er eins og áður að miklu leyti vegna innlánsstofnana í slitameðferð. Reiknuð gjöld vegna þeirra námu 28,7 ma.kr. og tekjur voru neikvæðar um 7 ma.kr. Neikvæðar tekjur má rekja til neikvæðrar endurfjárfestingar í erlendum félögum en tap varð á rekstrinum á fjórðungnum. Neikvæð áhrif innlánsstofnana í slitameðferð á þáttatekjujöfnuð nema 35,7 ma.kr. Jöfnuður þáttatekna án áhrifa þeirra er því óhagstæður um 38,7 ma.kr.

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.215 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 13.505 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 9.290 ma.kr. og hækka nettóskuldir um 144 ma.kr. á milli ársfjórðunga. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 2.583 ma.kr. og skuldir 3.639 ma.kr. og var hrein staða þá neikvæð um 1.056 ma.kr. og hækka nettóskuldir um 177 ma.kr. á milli ársfjórðunga.

Bein erlend fjárfesting
Flest fyrirtæki í beinni fjárfestingu hafa lokið við uppgjör ársins 2011 og hafa tölur ársins verið endurskoðaðar miðað við nýjustu upplýsingar frá þeim. Tölur fyrir fjármunaeign innlendra aðila erlendis voru endurskoðaðar frá árslokum 2010. Eign innlendra aðila í erlendum eignarhaldsfélögum var endurskoðuð til lækkunar en lánakröfur á erlend eignarhaldsfélög voru endurskoðaðar til hækkunar. Samanlögð áhrif endurskoðunar á fjármunaeign innlendra aðila erlendis er til hækkunar.
Bráðabirgðatölur fyrir landa- og atvinnugreinaskiptingu á flæði beinna erlendra fjárfestinga fram til ársins 2011 verða birtar 10. september nk. en staða á fjármunaeign fyrir árið 2011 var birt í júní sl. (Sjá http://www.sedlabanki.is/?PageID=291).

Erlend verðbréfaeign
Erlend verðbréfaeign innlendra aðila hefur verið endurmetin með hliðsjón af niðurstöðum úr árlegri könnun á landaskiptingu erlendrar verðbréfaeignar milli landa (Coordinated Portfolio Investment Survey). Niðurstaða könnunarinnar var birt á vef bankans 28. ágúst sl. Mest áhrif eru á verðbréfaeign annarra aðila , en hún reyndist rúmum 30 ma.kr. lægri en áður hafði verið áætlað, sé miðað við stöðu í árslok 2011.

Sjá nánar: Greiðslujöfnuður á öðrum ársfjórðungi 2012.pdf

 

Nr. 33/2012
3. september 2012

Til baka