logo-for-printing

27. ágúst 2012

Varúðarreglur eftir fjármagnshöft

Seðlabankinn hefur birt á heimasíðu sinni sérritið Varúðarreglur eftir fjármagnshöft; Skýrslu Seðlabankans til efnahags- og viðskiptaráðherra. Í áætlun um losun gjaldeyrishafta sem birt var 25. mars 2011 var boðað að áður en fjármagnshöft yrðu losuð gagnvart innlendum aðilum þyrfti að setja varúðarreglur sem miðuðu að því að verja fjármálakerfið gegn þeirri áhættu sem fylgt gæti óheftum fjármagnshreyfingum, þ.m.t. lausafjáráhættu í gjaldeyrisbundnum efnahagsreikningum fjármálastofnana og áhættu sem felst í lánveitingum í erlendri mynt til innlendra aðila sem ekki hafa tekjur eða undirliggjandi eignir sem fylgja erlendum myntum.

Í þeirri skýrslu sem hér er birt er auk ofangreindra atriða fjallað um að setja tímabundnar hömlur á hversu hratt lífeyrissjóðir geta byggt upp erlendar eignir sínar eftir að höft hafa verið losuð. Þá fjallar skýrslan um hugsanlegar reglur eða stjórntæki sem nota mætti til að bregðast við óhóflegu fjármagnsinnstreymi af því tagi sem varð hér á landi í aðdraganda fjármálakreppunnar.

Í framhaldi af útgáfu skýrslunnar mun hefjast vinna af hálfu viðeigandi ráðuneyta, Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins við að móta reglur af þessu tagi í endanlegu formi, þ.m.t. að gera tillögur að lagabreytingum þar sem við á. Í fyrri hluta skýrslunnar er nánar lýst í hverju sú vinna felst.

Fjármagnshreyfingar milli landa auka að jafnaði verðmætasköpun og velferð, en fjármagnsflæðinu getur einnig fylgt áhætta. Þær varúðarreglur sem rætt er um í ritinu eiga að takmarka gjaldeyrisáhættu í fjármálakerfinu og lausafjáráhættu í erlendum gjaldmiðlum, en einnig mun samspil þessara reglna í raun takmarka möguleika bankanna til óhóflegs vaxtar. Hefðu þær verið í gildi fyrir hrun má leiða að því rök að áhrif hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu á íslenskt fjármálakerfi hefðu orðið minni.

Skýrslan, Sérrit Seðlabanka Íslands nr. 6; Varúðarreglur eftir fjármagnshöft; Skýrsla Seðlabanka Íslands til efnahags- og viðskiptaráðherra, er aðgengileg á vef Seðlabanka Íslands, www.sedlabanki.is

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.

Sjá skýrsluna hér: Sérrit nr. 6; Varúðarreglur eftir fjármagnshöft; Skýrsla Seðlabanka Íslands til efnahags- og viðskiptaráðherra.

Nr. 31/2012
27. ágúst 2012

Til baka