logo-for-printing

14. júní 2012

Ný rannsóknarritgerð um fjárhagsstöðu íslenskra heimila í aðdraganda og kjölfar hrunsins

Út er komin rannsóknarritgerð nr. 59, „Households’ position in the financial crisis in Iceland: Analysis based on a nationwide household-level database“, eftir Þorvarð Tjörva Ólafsson og Karen Áslaugu Vignisdóttur. Í ritgerðinni eru kynntar niðurstöður rannsóknar á fjárhagsstöðu íslenskra heimila og hvernig hún þróaðist í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins. Greiningin byggist á einstökum gagnagrunni með ítarlegum upplýsingum um nær öll skuldsett heimili landsins. Höfundum er ekki kunnugt um að samsvarandi rannsókn hafi nokkurs staðar verið gerð til þessa.

Meginviðfangsefni rannsóknarinnar eru í fyrsta lagi að meta umfang og þróun greiðsluvanda sem er skilgreindur þannig að ráðstöfunartekjur heimilis dugi ekki til að standa undir bæði greiðslubyrði lána og lágmarksframfærslu. Í öðru lagi er umfang og þróun skuldavanda metið, þ.e. hlutfall skuldsettra húseigenda í neikvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði. Í þriðja lagi meta höfundar hlutfall heimila sem eru í þeirri sérlega viðkvæmu stöðu að vera bæði í greiðslu- og skuldavanda. Í fjórða lagi er lögð áhersla á að greina einkenni heimila í fjárhagsvanda til að styðja við stefnumótun stjórnvalda á þessu sviði. Í fimmta lagi leggja höfundar mat á áhrif ýmissa aðgerða til handa heimilum og endurútreiknings ólöglegra lána. Loks er fjallað um að hve miklu leyti lánveitingar fjármálastofnana til heimila sem þegar voru komin í greiðsluvanda á árunum 2007-2008 hafi aukið fjárhagsvandræði þeirra enn frekar. Í ritgerðinni eru niðurstöður rannsóknarinnar sýndar fyrir ólíka hópa í vel á annað hundrað myndum, t.d. á grundvelli tekna, gjaldmiðlasamsetningu lána, fjölskyldugerðar, aldurs og búsetu. Þá er staða íslenskra heimila einnig sett í alþjóðlegt samhengi.

Rannsóknarritgerðir Seðlabanka Íslands má nálgast hér: Rannsóknarritgerðir
Til baka