logo-for-printing

28. mars 2012

Greinargerð Seðlabanka Íslands um debetkortaviðskipti

Hér er birt greinargerð Seðlabanka Íslands um debetkortaviðskipti á Íslandi sem lýsir færsluflæði og uppgjöri debetkortaviðskipta. Greinargerðin tekur einkum til eftirfarandi atriða:

1. Að greina hvernig færsluflæði og uppgjör í debetkortaviðskiptum fer fram um þessar mundir og hvaða þjónustuaðilar eiga aðkomu að málinu.
2. Að draga fram þau meginsjónarmið sem leggja ber til grundvallar við mótun á framtíðarfyrirkomulagi á þessu sviði greiðslumiðlunar.
3. Að huga að eðlilegri hlutverkaskiptingu aðila og samspili við önnur mikilvæg greiðslumiðlunar- og uppgjörskerfi án þess þó að reyna að segja fyrir um eða hafa áhrif á þróun markaðarins og þeirra viðskiptalegu ákvarðana sem m.a. móta þróun hans.

Greinargerðin er þannig uppbyggð að á eftir inngangi er fjallað stuttlega um helstu ábendingar sem fram koma í henni. Í 3. kafla er greint frá ýmsum breytingum á umgjörð debetkortaviðskipta frá því að þau hófust í ársbyrjun 1994. Í 4. kafla er lýst færsluflæði í debetkortaviðskiptum, þ.e. frá því að færsla verður til í búnaði söluaðila og þar til að kemur að endanlegu uppgjöri í stórgreiðslukerfi Seðlabankans. Í 5. kafla er fjallað um uppgjörsferlið og fyrirkomulag á greiðslu þóknunar til færsluhirðis. Í lokakaflanum er að finna ýmsar ábendingar.

Með greinargerðinni fylgir einn viðauki. Í honum er lýst öllum leiðum sem heimildarfærslur og uppgjörsfærslur berast eftir frá söluaðilum og í heimildargjafakerfi og debetkortakerfi RB.

Greinargerðin er ítarlegri en að var stefnt í upphafi. Í fyrsta lagi kom í ljós að aldrei hefur verið tekið saman heildstæð lýsing á færsluflæði og uppgjöri í debetkortaviðskiptum. Í öðru lagi er hér um að ræða sérhæft málefni sem fámennur hópur starfsfólks hjá þeim aðilum sem sinna greiðslumiðlun þekkir til hlítar en aðrir eingöngu að hluta til eða alls ekki og ástæða er til að miðla þeirri þekkingu. Í þriðja lagi hafa orsakir/upptaka ýmiss konar útfærsluatriða/verklags í debetkortaviðskiptum fallið í gleymskunnar dá en full ástæða er til að halda þeim til haga.

Innleiðing tilskipana 2007/64/EB og 2009/110/EB í íslenskan rétt leiðir af sér aukna samkeppni á sviði greiðsluþjónustu hér á landi og á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Í kjölfar breyttrar lagaumgjarðar er ekki aðeins líklegt að nýir innlendir aðilar muni hefja starfsemi á þessu sviði, heldur mun aukin samkeppni koma erlendis frá.

Auk breytinga á lagaumhverfinu er mjög ör þróun á vettvangi tæknilegra lausna og einstakir markaðs- og þjónustuaðilar stunda í auknum mæli viðskipti yfir landamæri. Ný löggjöf opnar fleiri aðilum aðgengi að greiðslumiðluninni eða tilteknum þáttum hennar. Gæta þarf þess að þeir sem aðkomu eiga hafi til þess tilskilin leyfi fjármálaeftirlita og að starfsemi þeirra rúmist innan tilskilinna starfsleyfa.

Með sama hætti þarf Seðlabankinn að fylgjast náið með framþróun mála og fjárfesta í aukinni þekkingu á þessum vettvangi greiðslumiðlunarinnar

Sjá skýrsluna hér (birt 27. mars 2012):

Færsluflæði og uppgjör í debetkortaviðskiptum á Íslandi

Til baka